fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Theódóra stígur fram í fyrsta sinn eftir nauðgunina – Viðhorf Steinunnar Ólínu eins og síðan 1700 og súrkál

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 7. nóvember 2021 09:00

Theódóra Björg Loftsdóttir Aðsend mynd/ Mynd Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Theódóru Björg Loftsdóttur var nauðgað ásamt samstarfskonu sinni af yfirmanni þeirra á Hard Rock Café árið 2003. Maðurinn var síðar dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti. Þær voru báðar drukknar og voru drusluskammaðar í framhaldinu. Theódóra fór í geðrof, ákvað að flýja land og er nú búsett í Svíþjóð. Maðurinn, Said Lakhlifi, hélt hins vegar starfinu á Hard Rock þar til fjölmiðlar fóru að spyrjast þar fyrir, ári eftir nauðganirnar.

Henni hefur ofboðið umræða um þolendur að undanförnu og stígur því nú fram í fyrsta skipt undir nafni til að greina frá reynslu sinni. Sérstaklega þótti henni sárt að lesa skrif Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur, leik- og fjölmiðlakonu, þar sem hún fjallaði um áfengisneyslu og nauðganir eftir lyfjabyrlanir með umdeildum hætti og var hún í framhaldinu sökuð um þolendaskömmun.

Hér má nálgast viðtalið við Theódóru í fyrsta hlaðvarpsþætti DV.

„Við fórum út að skemmta okkur vinkonurnar aðfaranótt fjórða janúar og okkur var nauðgað af yfirmanni okkar á Hard Rock Café um nóttina,“ segir Theódóra. „Ég var ofurölvi og var rannsökuð uppi á sjúkrahúsi þar sem ljóst var að ég hafði orðið fyrir kynferðisbroti. Ég var með það mikið etanól í blóðinu að ég hefði ekki verið viðræðuhæf,“ segir hún en vill ekkert fara nánar út í atvikið sjálft. Það eru afleiðingarnar sem hún vill ræða.

„Eftir þennan atburð ákvað ég að yfirgefa Ísland því það var svo rosalega illa talað um mig og vinkonu mína á þessum tíma, hvernig týpur við værum og að við værum bara druslur. Þetta var bæði á netinu og á meðal fólks sem við þekktum, samstarfsfólks. Hann hélt vinnunni og ég átti bara að vinna með honum áfram.“

Jón Garðar Ögmundsson, sem á þessum tíma var framkvæmdastjóri Hard Rock, sagði í samtali við DV í í janúar 2004 að Said yrði látinn fara á næstu dögum. Það var því ekki fyrr en fjölmiðlar fóru að grafast fyrir um ástæður þess að Said var enn starfandi þar, löngu eftir að hann hafði verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að nauðga tveimur samstarfskonum sínum, sem honum var gert að hætta. Jón Garðar sagði að Said hafi verið slíkur lykilmaður, bæði yfirkokkur og veitingastjóri, og því hafi þetta ferli tekið lengri tíma en ella. „Maður getur ekki verið að fylgjast með hvað menn eru að gera í sínum frítíma,“ sagði Jón Garðar ennfremur.

Úr umfjöllun DV 16. janúar 2004.

Theódóru fannst óbærilegt að vera gert að vinna með manninum sem nauðgaði henni. Hún segir kjaftasögurnar og rætna umtalið hafa verið að gera út af við hana andlega. „Þetta var orðið svo rosalegt að tveimur vikum eftir að hæstaréttardómurinn fellur, og hann dæmdur í tveggja ára fangelsi, fór ég í geðrof af álagi og stressi og var lögð inn.“ Drusluskömmunin hafi verið gríðarleg. „Þegar þetta gerðist þá skammaðist ég mín ekki neitt,“ segir hún, en umtalið og sú staðreynd að samstarfsfólk þeirra tók afstöðu gegn þeim tveimur sem var nauðgað hafi verið erfitt. „Þetta tók allan kraft frá manni.“

Í sjokki yfir umræðunni

Tæp tuttugu ár eru liðin frá nauðguninni en afleiðingarnar gera enn vart við sig. Nýlegur pistill Steinunnar Ólínu um lyfjabyrlanir og nauðganir, og að fólk þyrfti að bera ábyrgð á sinni eigin áfengisneyslu gerði svo útslagið núna fyrir Theódóru.

„Auðvitað á maður að passa sig að drekka ekki of mikið en það er engin afsökun fyrir einhvern annan að nauðga manni. Ég var það drukkin að það þurfti að halda á mér út úr þessari íbúð. Ég stóð ekki í lappurnar. Ég var búin að drekka mikið, var ofurölvi. Ég vaknaði í þröngum jakka, renndum upp í háls og engum buxum. Það er ekki eðlilegt.“

Henni finnst því eins og umræðan um þolendur nauðgana sé lítið búin að breytast á síðustu 20 árum. „Ég er alveg í sjokki yfir þessu. Ég er búin að vera að lesa undanfarið hvað fólk er að skrifa, þjóðþekktir einstaklingar, sem stuðar mann svakalega þegar maður er þolandi. Mér líður eins og ég sé að fara í gegn um þetta aftur, eins og þessi drusluskömm sé látin viðgangast. Mér finnst eins og Steinunn Ólína segi hreint út að konur þurfi bara að passa sig á því að drekka ekki. Við eigum að geta klætt okkur í það sem við viljum og drukkið það sem við viljum án þess að það sé brotið á manni.“

Gamaldags viðhorf Steinunnar Ólínu

Theódóra er sjálf móður unglingsstúlku og henni finnst mikilvægt að vandað sé til þeirra skilaboða sem unga fólkinu okkar eru send. Þar finnst henni augljóst að frekar ætti að efla forvarnir og fræðslu í skólum frekar en að þjóðþekkt fólk sé að gagnrýna þolendur á samfélagsmiðlum.

Hún hefur aldrei talað opinberlega um þessi mál áður undir nafni, og það þurfti því talsvert til. „Já, þessi umræða núna gjörsamlega gerði mig orðlausa þannig að ég steig fram núna og mér finnst hræðilegt að fólk skuli segja svona.“

Skrif Steinunnar Ólínu hafa sannarlega verið gagnrýnd en það eru líka margir sem hafa hrósað henni. „Mér finnst það mjög skrýtið. Ég bjóst innilega ekki við því. Ég hélt að þetta væri eitthvað sem ætti heima 1700 og súrkál.“

Skilaboð Theódóru til þolenda eru einföld:

„Það skiptir engu máli í hvað þú ert klædd þegar þetta gerist, skiptur engu máli þó þú sért búin að drekka. Leitaðu þér hjálpar og láttu skoða þig um leið. Það er engin skömm að verða fyrir kynferðisbroti eða nauðgun. Það er ekki þér að kenna. Það eru mín skilaboð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“