Á föstudaginn birti Sólveig nokkur færslu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hún óskaði eftir því að fólk myndi upplýsa um stturlaða staðreynd um sjálft sig í athugasemdunum við færsluna. Færslan vakti mikla athygli á Twitter og yfir 100 netverjarskrifuðu athugasemd við hana.
Magni Freyr Guðmundsson er einn þeirra sem deildi sturlaðri staðreynd um sig en hans athugasemd við færsluna vakti áberandi mikla athygli. Ástæðan fyrir þessari athygli er án efa sú að um magnaða og rómantíska sögu er að ræða. Sjá mér færslu Magna hér fyrir neðan.
Þegar ég var 19 ára voru lögð laun annarar manneskju inn á bankareikninginn minn fyrir mistök – við vorum með sama reikningsnúmer, sitthvort útibúið.
4 árum síðar kynntumst við og í dag höfum við verið saman í 20 ár, gift og í góðum fíling. Ennþá með sömu reikningsnúmerin.— Magni Freyr (@MagniFreyr) November 5, 2021
DV ræddi við Magna um þessa skemmtilegu mistök sem enduðu síðan í hjónabandi.
„Þetta verður þannig til að ég sem sagt er í kringum 19 ára. :etta er einhvern tímann fyrir 2000, ég er að tékka á reikningnum mínum fyrir helgina, tékka hversu gott partý maður gæti haldið. Það var bara fullt af pening þarna sem ég kannaðist ekkert við og ég var náttúrulega bara himinlifandi yfir því, þurfti ekki að blanda landa í Frissa núna, ég gat keypt mér eitthvað almennilegt,“ segir hann í samtali við blaðamann.
„Ég spáði svo sem ekkert meira í því, ég man ekki hvort það var sama dag eða bara eftir helgi, þá var þetta farið aftur. Þá kom einhver skýring á því að það hefðu verið lögð inn á mig laun einhverrar stelpu, Kristjönu.“
Fjórum árum eftir þetta kynntist Magni stelpu sem átti eftir að verða eiginkonan hans. „Ég var að vísu búinn að þekkja hana lengi, þetta var vinkona systur minnar. En ég tengdi þetta náttúrulega ekkert saman, það er ekki fyrr en við vorum að tala saman einhvern tímann seinna þegar við erum löngu byrjuð saman þegar þetta kemur í ljós, að það voru launin hennar sem fóru inn á reikninginn minn.“
Ein ástæða fyrir því að Magni lagði aldrei tvo og tvo saman er sú að hann þekkti eiginkonu sína alltaf undir gælunafninu Bogga en heitir Kristjana. „Ég þekkti hana alltaf bara sem Boggu þannig ég tengdi náttúrulega ekkert við einhverja Kristjönu úti í bæ. Það er reyndar önnur fyndin saga, við vorum búin að vera saman í þrjár vikur þegar ég spurði hana hvað hún heitir, ég þekkti hana alltaf bara sem Boggu,“ segir hann kíminn.
„Það voru sem sagt tvö eða þrjú útibú hjá Gamla Sparisjóðnum hérna. Reikningsnúmerin okkar voru þau sömu en við vorum í sitthvoru útibúinu. Það var bara einhver ruglingur þarna og við höfum mikið hlegið að þessu í gegnum tíðina. Ég var sem sagt orðinn fjárhagslega háður henni mjög snemma. Við erum ennþá bara með sama reikninginn, hann hefur fylgt okkur áfram. Þannig það er mjög auðvelt fyrir okkur að muna reikninginn hjá hvoru öðru.“