Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði töluvert marga ökumenn í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þá voru nokkrar líkamsárásir og hávaðatilkynningar. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar frá nóttinni.
Klukkan 23 í gær var lögreglumaður bitinn í 105 Reykjavík og er málið nú í rannsókn. Um 20 mínútum eftir að lögreglumaðurinn var bitinn var tilkynnt um líkamsárás og eignaspjöll á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur.
Síðar um nóttina, eða þegar klukkan var að slá 2, var tilkynnt um aðra líkamsárás sem átti sér einnig stað á skemmtistað í miðbænum. Árásaraðili var handtekinn á vettvangi og eyddi nóttinni í fangageymslu lögreglu.
Um klukkustund síðar var tilkynnt um aðra líkamsárás en sú fór fram í Árbænum. Gerandinn gisti einnig í fangageymslu lögreglu.
Þá var tilkynnt um umferðarslys sem átti sér stað í miðbænum en aðili féll þar af rafhlaupahjóli. Aðilinn var með áverka í andliti og brotna tönn eftir fallið.