Refsing yfir Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni var í dag þyngd af Landsrétti um eitt ár. Um er að ræða dóm fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum en Jóhannes þarf nú að afplána 6 ára fangelsisdóm fyrir brotin.
Eins og DV greindi frá í byrjun árs var Jóhannes Tryggvi dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að nauða fjórum konum. Nauðganirnar áttu sér allar stað á nuddbekk Jóhannesar, en hann rak meðferðarfyrirtækið Postura og sagðist sérhæfa sig í meðferð við ýmsum stoðkerfakvillum. Meðferðin fór meðal annars fram í gegnum leggöng og endaþarm kvennanna. Jóhannes Tryggvi neitaði sök í málunum en framburður kvennannna var metinn trúverðugur.
Á fimmta tug kvenna gáfu sig árið 2017 og 2018 fram við Sigrúnu Jóhannsdóttur lögmann. Rúmlega 20 konur kærðu en að endingu var aðeins ákært í málum fjögurra kvenna.
Fimmta nauðgunarákæran gegn Jóhannesi er nú til meðferðar í Héraðsdómi Reykjaness. Þar gerði brotaþoli í málinu ekki kröfu um að þinghaldi yrði lokað og verður því réttað yfir Jóhannesi fyrir opnum tjöldum. Er það fyrsta opna kynferðisbrotamál fyrir íslenskum dómstólum í hið minnsta áratugi.