Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í maí 2020 hafi 1.800 íbúðir i fjölbýli verið til sölu samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Nú eru þær aðeins um 250 að sögn Hannesar Steindórssonar, formanns Félags fasteignasala. „Það er ofboðslega lítið til. Ég er búinn að vera í þessum bransa í sautján ár og man ekki annað eins. Staðan hefur aldrei verið svona,“ sagði Hannes.
Hann sagði að í raun séu aðeins 400 til 500 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til sölu núna því inni í fjölda fasteigna til sölu samkvæmt opinberum skrám séu hesthús, lóðir, sumarhús, atvinnuhúsnæði og fleira.
Hann sagði að 60 til 70 einbýlishús séu til sölu og 60 par- og raðhús. Nánast ekkert framboð sé í sumum hverfum, til dæmis Vesturbænum og Seltjarnarnesi. Einnig séu aðeins nokkrir tugir eigna í fjölbýli til sölu í Kópavogi.
Hann sagðist telja að þrjú til fjögur ár séu í að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar þrátt fyrir að töluvert af húsnæði sé í byggingu eða í pípunum.
Þetta litla framboð þrýstir verðinu upp því eftirspurnin er mun meiri en framboðið. Á síðustu mánuðum voru 35 til 40% seldra eigna á höfuðborgarsvæðinu seldar á yfirverði.