Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Þorláki Fannari Albertssyni, sem var auk annarra afbrota, sakfelldur fyrir árás og morðtilraun gegn Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur, fyrrverandi varaþingmanni, en hún leigði honum herbergi á þeim tíma er hún varð fyrir árásinni.
Landsréttur þyngdi dóminn yfir Þorláki úr sex og hálfu ári í sjö og hálfs árs fangelsi. Þorlákur er 35 ára gamall og á langan brotaferil að baki.
Þorlákur fékk í héraði sex og hálfs árs fangelsi fyrir tvær líkamsárásir sem voru ótengdir viðburðir. Annars vegar var hann sakfelldur fyrir hrottafulla og hættulega árás á karlmann og fyrir frelsissviptingu á manninum, en hins vegar fyrir árás á leigusala sinn, Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Sjálfstæðisflokksins. Herdísi tókst að verjast Þorláki með þvottakörfu og telur víst að hann hefði myrt hana ef ekki hefði komið til hennar eigið snarræði og varnartilburðir.
Herdís greindi frá árásinni í viðtali við Morgunblaðið í vor og endursagði dv.is þá grein. Atvikið átti sér stað á Langholtsvegi þann 15. júní árið 2020. Herdís var að setja í þvottavél í kjallaranum er hún heyrði að Þorlákur, sem hún leigði herbergi, bankaði og ekki svo inn:
„Ég kíki út um gluggann á baðinu og sé að bíll nágrannans er heima og hélt að hann væri að koma í kaffi. Ég labba fram á gang og sé þá mann standa í dyrunum. Hann öskrar: „Ég veit hvað þú gerðir í gær. Ég ætla að drepa þig!“ Svo gengur hann á móti mér og ég á móti honum en kemst ekki fram hjá honum, þannig að ég bakka,“ sagði Herdís í viðtalinu við Morgunblaðið, og enn fremur þetta:
„Ég var smátíma að átta mig á því hver þetta væri. Og hvað væri að gerast. Hann er hár, stór og sterkur og með hníf á lofti. Ég öskraði rosalega hátt þrisvar, og horfði framan í hann en það voru engin viðbrögð. Það var enginn í húsinu og ég áttaði mig fljótt á því að enginn myndi heyra í mér þannig að ég hætti að öskra. Ég áttaði mig á því að ég væri bara að eyða orku og þetta væri ekki að hafa letjandi áhrif á hann.“
Þorlákur var þá kominn inn til hennar með hnífinn á lofti og sveiflaði honum í átt að höfði hennar. Herdís setti höndina fyrir og greip hnífinn og fékk djúpan skurð sem náði niður aðbeini. „Höndin skarst bara í sundur, alveg inn í miðjan lófa.“
Næst setti Þorlákur hnífinn að hálsi Herdísar en hún hugsaði með sér að þarna væri lífið bara búið. Hún náði sem betur fer að koma sér undan hnífnum. Þá stakk Þorlákur hana í lærið en alls var hún með 11 stungusár eftir árásina.
„Sjáöldur augna hans voru svo þanin af neyslu að hann minnti mig á rándýr. Þá man ég eftir náttúrulífsmynd, og ég heyrði bara nánast röddina í Attenborough segja frá dýrategund sem leikur sig lífvana til að minnka árásarhneigð rándýrsins. Ég átti ekki mikinn séns þegar þarna var komið sögu. Ég var orðin mikið slæpt og það var ekki margt í stöðunni,“ segir Herdís en hún lét sig falla í gólfið.
Herdís náði að hringja í neyðarlínuna og fá sjúkrabíl. Þá mætti sérsveitin líka og skaut Þorlák með gúmmíkúlum og sprautaði hann með táragasi. „Hann var alveg brjálaður. Ég held hann hafi náð að sprauta sig aftur eftir árásina, því það var sprautunál í vaskinum í eldhúsinu sem er við innganginn. Hann var alla vega brjálæðislega ör þegar þeir koma,“ sagði Herdís umræddu viðtali.
Málsvörn Þorláks í héraði og tilefni áfrýjunar dómsins er að hann telur sig hafa verið ósakhæfan vegna geðrofs. Hann var undir áhrifum fíkniefna en samkvæmt matsgerðum bendir ekkert til þess að hann hafi þróað með sér geðrofssjúkdóm óháð fíkniefnaneyslu. Ástand hans hafi stafað af fíkniefnaneyslu en ekki geðsjúkdómi. Um þetta segir meðal annars í dómi Landsréttar:
„Upplýst er að ákærði glímdi við ýmsar ranghugmyndir þegar hann framdi þau brot sem að framan greinir. Því má ætla að hugmyndir hans, sem lágu brotunum til grundvallar, hafi verið óskýrar og byggst á trufluðu hugarástandi. Eins og áður segir kom hann sér sjálfur í það ástand með neyslu vímuefna. Í þeim tilvikum hefur jafnan verið litið svo á að 75. gr. almennra hegningarlaga verði ekki beitt. Með vísan til þess, og að teknu tilliti til þess hversu alvarleg brotin eru, sakaferils ákærða og að hann á sér engar málsbætur, er ekki unnt að fallast á að ákveða ákærða refsingu með hliðsjón af framangreindu ákvæði.“
Niðurstaðan var að Þorlákur Fannar Albertsson var dæmdur í fangelsi í sjö og hálft ár og til að greiða þrotaþolum sínum samtals tæplega 6,4 milljónir króna í skaðabætur. Einnig þarf hann að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.