fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Dómur í Landsrétti: Hryllingurinn á Langholtsvegi – Herdís varðist morðtilraun Þorláks með þvottakörfu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 5. nóvember 2021 16:30

Mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Þorláki Fannari Albertssyni, sem var auk annarra afbrota, sakfelldur fyrir árás og morðtilraun gegn Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur, fyrrverandi varaþingmanni, en hún leigði honum herbergi á þeim tíma er hún varð fyrir árásinni.

Landsréttur þyngdi dóminn yfir Þorláki úr sex og hálfu ári í sjö og hálfs árs fangelsi. Þorlákur er 35 ára gamall og á langan brotaferil að baki.

Þorlákur fékk í héraði sex og hálfs árs fangelsi fyrir tvær líkamsárásir sem voru ótengdir viðburðir. Annars vegar var hann sakfelldur fyrir hrottafulla og hættulega  árás á karlmann og fyrir frelsissviptingu á manninum, en hins vegar fyrir árás á leigusala sinn, Herdísi Önnu Þorvaldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Sjálfstæðisflokksins. Herdísi tókst að verjast Þorláki með þvottakörfu og telur víst að hann hefði myrt hana ef ekki hefði komið til hennar eigið snarræði og varnartilburðir.

Herdís varðist af hörku og bjargaði lífi sínu

Herdís greindi frá árásinni í viðtali við Morgunblaðið í vor og endursagði dv.is þá grein. Atvikið átti sér stað á Langholtsvegi þann 15. júní árið 2020. Herdís var að setja í þvottavél í kjallaranum er hún heyrði að Þorlákur, sem hún leigði herbergi, bankaði og ekki svo inn:

„Ég kíki út um glugg­ann á baðinu og sé að bíll ná­grann­ans er heima og hélt að hann væri að koma í kaffi. Ég labba fram á gang og sé þá mann standa í dyr­un­um. Hann öskr­ar: „Ég veit hvað þú gerðir í gær. Ég ætla að drepa þig!“ Svo geng­ur hann á móti mér og ég á móti hon­um en kemst ekki fram hjá hon­um, þannig að ég bakka,“ sagði Her­dís í viðtalinu við Morgunblaðið, og enn fremur þetta:

„Ég var smá­tíma að átta mig á því hver þetta væri. Og hvað væri að ger­ast. Hann er hár, stór og sterk­ur og með hníf á lofti. Ég öskraði rosa­lega hátt þris­var, og horfði fram­an í hann en það voru eng­in viðbrögð. Það var eng­inn í hús­inu og ég áttaði mig fljótt á því að eng­inn myndi heyra í mér þannig að ég hætti að öskra. Ég áttaði mig á því að ég væri bara að eyða orku og þetta væri ekki að hafa letj­andi áhrif á hann.“

Þorlákur var þá kominn inn til hennar með hnífinn á lofti og sveiflaði honum í átt að höfði hennar. Herdís setti höndina fyrir og greip hnífinn og fékk djúpan skurð sem náði niður aðbeini. „Hönd­in skarst bara í sund­ur, al­veg inn í miðjan lófa.“

Næst setti Þorlákur hnífinn að hálsi Herdísar en hún hugsaði með sér að þarna væri lífið bara búið. Hún náði sem betur fer að koma sér undan hnífnum. Þá stakk Þorlákur hana í lærið en alls var hún með 11 stungusár eftir árásina.

„Sjáöld­ur augna hans voru svo þanin af neyslu að hann minnti mig á rán­dýr. Þá man ég eft­ir nátt­úru­lífs­mynd, og ég heyrði bara nán­ast rödd­ina í Atten­borough segja frá dýra­teg­und sem leik­ur sig líf­vana til að minnka árás­ar­hneigð rán­dýrs­ins. Ég átti ekki mik­inn séns þegar þarna var komið sögu. Ég var orðin mikið slæpt og það var ekki margt í stöðunni,“ seg­ir Her­dís en hún lét sig falla í gólfið.

Herdís náði að hringja í neyðarlínuna og fá sjúkrabíl. Þá mætti sérsveitin líka og skaut Þorlák með gúmmíkúlum og sprautaði hann með táragasi. „Hann var al­veg brjálaður. Ég held hann hafi náð að sprauta sig aft­ur eft­ir árás­ina, því það var sprautu­nál í vask­in­um í eld­hús­inu sem er við inn­gang­inn. Hann var alla vega brjálæðis­lega ör þegar þeir koma,“ sagði Herdís umræddu viðtali.

Taldi sig vera ósakhæfan

Málsvörn Þorláks í héraði og tilefni áfrýjunar dómsins er að hann telur sig hafa verið ósakhæfan vegna geðrofs. Hann var undir áhrifum fíkniefna en samkvæmt matsgerðum bendir ekkert til þess að hann hafi þróað með sér geðrofssjúkdóm óháð fíkniefnaneyslu. Ástand hans hafi stafað af fíkniefnaneyslu en ekki geðsjúkdómi. Um þetta segir meðal annars í dómi Landsréttar:

„Upplýst er að ákærði glímdi við ýmsar ranghugmyndir þegar hann framdi þau brot sem að framan greinir. Því má ætla að hugmyndir hans, sem lágu brotunum til grundvallar, hafi verið óskýrar og byggst á trufluðu hugarástandi. Eins og áður segir kom hann sér sjálfur í það ástand með neyslu vímuefna. Í þeim tilvikum hefur jafnan verið litið svo á að 75. gr. almennra hegningarlaga verði ekki beitt. Með vísan til þess, og að teknu tilliti til þess hversu alvarleg brotin eru, sakaferils ákærða og að hann á sér engar málsbætur, er ekki unnt að fallast á að ákveða ákærða refsingu með hliðsjón af framangreindu ákvæði.“

Niðurstaðan var að Þorlákur Fannar Albertsson var dæmdur í fangelsi í sjö og hálft ár og til að greiða þrotaþolum sínum samtals tæplega 6,4 milljónir króna í skaðabætur. Einnig þarf hann að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“