Matvælastofnun varar áfram við tínslu og neyslu á kræklingi úr Hvalfirði þar sem DSP þörungaeitur greindist yfir viðmiðunarmörkum fyrir skömmu.
Í frétt á heimasíðu Matvælastofnunar kemur fram að DSP þörungaeitur í kræklingi getur valdið kviðverkjum, niðurgangi, ógleði og uppköstum. Einkenni koma fram fljótlega eftir neyslu og líða hjá á nokkrum dögum.
Fulltrúi Matvælastofnunar safnaði kræklingi föstudaginn 22. október s.l. við Fossá í Hvalfirði. Tilgangurinn var að kanna hvort almenningi væri óhætt að tína krækling í Hvalfirði. Niðurstöður mælinga leiddu í ljós að DSP þörungaeitur var 440 µg/kg en fyrir mánuði mældist 1150 µg/kg í kræklinginum. Bæði gildin eru vel yfir viðmiðunarmörkum, sem eru 160 µg/kg.
Eru neytendur enn varaðir við að neyta kræklings úr firðinum eins og staðan er. Stofnunin mun áfram fylgjast með stöðu mála og láta vita þegar óhætt verður að neyta kræklings úr firðinum. Yfir veturinn er sýnataka mánaðarlega, þar sem vöxtur þörunga er hægur yfir dimma vetrarmánuði og breytingar á stöðu þörungaeiturs eru hægar.
Að lokum vill Matvælastofnun vekja athygli á að því fylgir ávalt áhætta að neyta skelfisks sem safnað er við skeljatínslu og er það alltaf á eigin ábyrgð.