Þetta er yfirskriftin á pistli sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifar en pistillinn birtist á vef breska tímaritsins The Spectator. Í pistlinum talar Sigmundur um loftlagsráðstefnuna COP sem nú er haldin í 26. skipti.
„Ég er á leiðinni til Glasgow vegna COP26 ráðstefnunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer til útlanda síðan heimsfaraldurinn hófst,“ segir Sigmundur í pistlinum. „Þetta er mín önnur COP ráðstefna. Fyrri ráðstefnan var í París árið 2015 en þá var ég forsætisráðherra. Síðan þá hef ég beðist opinberlega afsökunar fyrir að hafa ekki verið nógu gagnrýninn á þeim tíma.“
Sigmundur segir að ástæðan fyrir því að hann hafi verið ekki „nógu gagnrýninn“ á þessum tíma sé sú að hann var upptekin við aðra hluti. „Aðallega þær óviðjafnanlegu aðgerðir sem við gripum til með það að markmiði að laga efnahagskerfið eftir hrunið,“ segir hann.
„Ég veit, þetta er ekki fullkomin afsökun. Ég geri mér nú grein fyrir því að ég hefði átt að draga hóphugsunina í efa. Þrátt fyrir það, þá var búið að ákveða allt áður en ég mætti. Þið vitið hvernig þetta virkar. Í dag eru stjórnmálamenn ekki að taka stefnu heldur eru þeir orðnir að talsmönnum fyrir stefnur stofnanna.“
Hægt er að lesa pistil Sigmunds Davíð í heild sinni hér en hann hefur vakið nokkra athygli hér á landi eftir að mbl.is vakti athygli á honum. Meðal annars vakti pistillinn athygli Hrafns Jónssonar, kvikmyndagerðamanns og pistlahöfunds, en Hrafn birti færslu á Twitter þar sem hann segist hafa búist við allt öðru þegar hann sá að Sigmundur sagðist hafa brugðist þjóðinni.
Ahh jæja, þá er loksins komið að því, persónulegu uppgjöri Sigmundar þar sem hann gengst við brestum sínum, Wintris málinu, þessu öllu…..wait, what? pic.twitter.com/Vhc0mNT62T
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) November 4, 2021
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, er um þessar mundir staddur í Glasgow vegna loftlagsráðstefnunnar. Hann skrifar athugasemd við færslu Hrafns og þakkar fyrir að Sigmundur hafi ekki verið með skoðanirnar sem hann er með í dag þegar hann var forsætisráðherra árið 2015.
Eitt að því skárra sem hann gerði var að vera ekki orðinn algjör trumpisti í París.
— Andrés Ingi (@andresingi) November 4, 2021