Ole Anton Bieltvedt skrifar harðorða kveðju til rjúpnaveiðimanna stjórn NÍ og ráðherra í Fréttablaðið í morgun. Tilefni greinarinnar er yfirstandandi rjúpnaveiðitímabil, en óhætt er að segja að Ole sé ekki par sáttur með stjórnvöld í málinu.
Ole rekur sögu rjúpnaveiði en þar hefur gengið á ýmsu undanfarin ár. Árin 2003, 2004 og 2005 var veiði bönnuð af Siv Friðleifsdóttur. Stofninn braggaðist mjög á veiðibannárunum, lýsir Ole, og segir að stofninn hefði getað verið ein milljón fugla hefði ekki verið fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem heimilaði rjúpnaveiði aftur árið 2005.
Hann segir þá jafnframt forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands og helstu rjúpnasérfræðing hennar vera rjúpnaveiðimenn og tillögur þeirra því óneitanlega litaðar af því. „Hefði þessi tillaga komið innan af Kleppi, hefði mátt skilja hana, en hún kom úr Urriðaholtsstræti í Garðabæ, höfuðstöðvum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hvernig geta annars góðir menn og gegnir gert sig seka um slíka fásinnu!?“ skrifar Ole.
Ole fjallar þá um aðdragandann að yfirstandandi veiðitímabili, en á formaður Skotvís, Skotveiðifélags Íslands, var boðaður á fund með ráðherranum á elleftu stundu nú í lok október. Héldu margir að dregið gæti til tíðinda, enda rjúpnastofninn í lægð. „Því miður kom á daginn, þegar dagur kom að kveldi 28. október, að Guðmundur Ingi Guðbrandsson er enginn Salómon. Vantar þar nokkuð á,“ segir Ole.
Svo fór að Guðmundur umhverfisráðherra fækkaði ekki leyfðum veiðidögum, en setti þó þær hömlur að ekki má byrja að leita eða veiða rjúpu fyrr en á hádegi. Ole gefur ekki mikið fyrir ákvörðun ráðherra Vinstri grænna:
Venjulegir menn myndu gera sér grein fyrir því, að hvort leyfðir séu 22 heilir veiðidagar eða 22 hálfir veiðidagar, skiptir engu máli, því veiðimenn þurfi, hvort sem er, oft að nota morguninn til að komast á veiðistað, auk þess, sem tvö skot á pör eða lítinn hóp duga til að fylla veiðikvóta.
Sumir verða frægir að endemum, aðrir af hugleysi. Að verða frægur af hvort tveggja, er ekki gott eða gæfulegt.
Veiðitímabilið fór af stað 1. nóvember síðastliðinn. Veiða má föstudaga til þriðjudags, eftir hádegi, alla daga í nóvember. Samtals eru það 22 (hálfir) veiðidagar, eins og Ole bendir á.