„Ég skil ekki þetta hatur Íslendinga á gæludýrum og þetta að vilja banna allt sem þér líkar ekki við, það er dapurlegt sjónarmið,“ segir Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir og þykir sú ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar að banna lausagöngu katta frá og með árinu 2025 vera sorglega.
„Lausaganga katta er bara hluti af samfélaginu, hluti af því að búa í samfélagi með öðru fólki sem er misjafnt eins og það er margt,“ segir Steinar.
Hann er ekki í nokkrum vafa um að kettir eigi þátt í að halda músastofni í skefjum. „Kettir eru miklar veiðiklær og ég hugsa að þeir höggvi stórt skarð í músastofninn, ég er viss um það. Um rottur gegnir kannski öðru máli þar sem þær halda sig meira í klóakskerfinu og því ólíklegra að þeir haldi fjölda þeirra mikið niðri,“ segir Steinar sem telur þó fullvíst að kettir hjálpi til við að halda frá okkur þeim rottum sem koma upp á yfirborðið. „Köttur sér rottu langt á undan mannsauganu og getur verið búin að klófesta rottuna áður en fólk á vettvangi sér hana.“
Sumir kettir hafa þann vana að koma með bráð sína heim og hefur Steinar fengið útköll vegna þess að kettir hafa borið mýs eða rottur inn í hús en ekki drepið þær. Er honum minnisstætt útkall sem hann fór í fyrir allmörgum árum í blokk í Austurbænum þar sem frárennslisrör frá þaki niður í jörð hafði sprungið og rottur leituðu út um gatið:
„Þarna voru Bengal-kettir sem lágu fyrir utan rörið og stukku á rotturnar sem leituðu út. Síðan báru þeir lifandi rotturnar inn í hús, eigendum þeirra til skelfingar.“
„Það er kvartað yfir því að kettir veiði mikið af fuglum og eflaust gera þeir það. En þeir hinir sömu hljóta að átta sig á því að mýs geta ekki flogið og þú getur því rétt ímyndað þér hvort þeir veiði ekki margar mýs. Þetta verður kannski gott fyrir þá sem eru miklir músavinir,“ segir Steinar sem telur einsýnt að bann við lausagöngu katta geti aukið músagang.