„Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar eru mjög dýr efnahagsleg mistök,“ segir Jóhannes Þór um ákvörðun íslenskra sóttvarnaryfirvalda um að halda til streitu takmörkunum á ferðafrelsi um íslensk landamæri vegna Covid-19 faraldursins. Ísland er nú með hörðustu landamæratakmarkanir í Evrópu.
„Það er einföld staðreynd að lágmarks-neikvæð efnahagsleg áhrif hennar á útflutningstekjur þjóðarbúsins verða a.m.k. um 26 milljarðar króna,“ útskýrir Jóhannes. „Þessi ákvörðun jafngildir því að ríkisstjórnin ákvæði að veiða ekki nema helming loðnukvótans í vetur.“
Vegna þessarar ákvörðunar verður minna framboð á flugsætum til Íslands næsta sumar, erlendar ferðaskrifstofur munu selja færri ferðir til landsins og færri einstaklingar munu panta sér far til Íslands í vetur og á næsta ári.
Nú þegar er komið fram dæmi um minnkað framboð flugsæta næsta sumar sem mun kosta samfélagið allt að 6,5 milljarða króna.
Jóhannes segir að það eina sem hefði þurft að breyta í reglum til þess að komast hjá þessum mikla kostnaði er að hætta að krefja bólusetta erlenda ferðamenn um neikvætt Covid próf áður en þeir koma um borð í flugvél til Íslands en að láta þess í stað bólusetningaskírteinið duga. „Það dugar öllum öðrum EES löndum.“
Jóhannes gagnrýnir þá Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, og heilbrigðisyfirvöld. Segir hann ákvörðunina órökstudda með öllu.
Í minnisblaði sóttvarnarlæknis sem ákvörðunin er byggð á er ekki stafkrókur sem rökstyður áframhaldandi aukakröfur á bólusetta erlenda ferðamenn án tengsla við samfélagið hér á landi. Ekki arða. Enda hefur hann sjálfur bent á að samfélagssmitin sem hófust hér í haust hafi öll verið rakin til Íslendinga og fólks með tengsl við samfélagið sem var að koma frá útlöndum.
Þess í stað hefði Jóhannes lagt til að halda áfram að skima íslenska farþega, krefjast skimunar og sóttkvíar fyrir óbólusetta farþega en að hætta að krefja bólusetta ferðamenn án tengsla við landið um þetta aukapróf. Bendir hann á að engin önnur ríki innan EES halda uppi samskonar kröfum og Ísland í þeim efnum.
Segir Jóhannes að lokum:
Það er á ábyrgð stjórnvalda að ákvarðanir um ferðatakmarkanir sem hafa bein efnahagsleg áhrif séu teknar á grundvelli þess að stjórnvöld vegi og meti bæði sóttvarnaleg rök og efnahagsleg rök. Ég lýsi því eftir efnahagslegum forsendum ákvörðunar ríkisstjórnarinnar fyrir þessari ákvörðun um framlengingu á óbreyttum ladnamæratakmörkunum til 15. janúar. Ferðaþjónustuaðilar, og samfélagið allt sem nú verður af mikilvægum tekjum vegna þessarar ákvörðunar, á heimtingu á því að þær forsendur séu gerðar opinberar.