Hilldur Lilliendahl, kynjafræðinemi og femínískur aktívisti, segir að viðtal fréttaskýringaþáttarins Kveiks við leikarann Þóri Sæmundsson hafi valdið þolendum á íslandi skaða. Aðeins hafi verið dregin fram ein hlið í þættinum þó svo að auðvelt hefði átt að vera að finna fleiri viðmælendur – það hafi hreinlega ekki verið leitað eftir því.
Viðtalinu svipi nokkuð til viðtals sem RÚV tók við Ólaf Skúlason biskup árið 1996, en þar gerði Ólafur að umtalsefni það sem hann kallaði „sögusagnir“ um að hann hefði „angrað konur“ eins og hann orðaði það sjálfur.
Eins og margir muna þá var Ólafur síðar sakaður um brot gegn fjölda kvenna, meðal annars gegn dóttur sinni, og ákvað kirkjan meðal annars vegna þessa máls að greiða sanngirnisbætur til fjögurra þolenda Ólafs.
Þórir Sæmundsson var árið 2017 sakaður um að hafa kynferðislega áreitt börn undir lögaldri með sendingu kynferðislegs myndefnis en brot hans leiddu til þess að hann var rekinn frá Þjóðleikhúsinu og hefur undanfarin ár átt erfitt með að finna og halda vinnu.
Hildur skrifar pistil sem birtist hjá Vísi um málið. Hún segir að líta megi á Kveiksþáttinn á þriðjudaginn sem rúmlega hálftíma langa atvinnuauglýsingu.
„Við tók svo það sem mætti kalla 35 mínútna atvinnuauglýsingu þar sem tárvotur Þórir Sæmundsson lýsti því að hann væri í raun ekki vondur maður, hann hefði gerst sekur um þennan dómgreindarbrest þarna einu sinni (að senda stúlkum á grunnskólaaldri mynd af tippinu á sér) en í raun hefði hann bara verið leiddur í gildru. Nú upplifði hann sig útskúfaðan úr samfélaginu og sagði að sakleysi barna sinna hefði verið rænt.“
Hildur segir ljóst af viðtalinu að Þórir hefur ekki iðrast vegna þeirra brota sem hann hefur framið gegn konum eða öllu heldur stúlkum. Og ekki hafi hann sýnt eftirsjá.
Hún furðar sig á því að margir landsmenn virðist kaupa fullyrðingu Þóris um að 15 ára stúlka hafi lokkað hann til að senda af sér nektarmyndir og hversu fljótir landsmenn séu að fyrirgefa Þóri. Líklega þurfi margir að rifja upp áðurnefnt viðtal við Ólaf Skúlason
„Ég get ekki annað en spurt ykkur sem hafið tapað ykkur á Facebook og kaffistofum yfir því að þessar fimmtán ára gálur eigi nú allt illt skilið og þessi gulldrengur hafi gert hreint fyrir sínum dyrum; munið þið eftir þessu? Þegar biskup Íslands mætti í drottningarviðtal hjá RÚV fyrir aldarfjórðungi, hvar stóðuð þið þá og hvernig hefur sagan farið með þá afstöðu sem þið tókuð þá vikuna eða það árið?“
Hildur bendir jafnframt á það að Þórir hafi tekið fram í viðtalinu að hann hafi íhugað að flytja frá landi en ákveðið að gera það ekki þar sem með því væri hann að gangast við sekt – þarna sýni Þórir það skýrt að hann sé ekki búinn að horfast í augu við brot sín og að hann hafi ekki tekið ábyrgð á þeim.
„Aðspurður jánkaði Þórir því að hafa ekki viljað flytja burt vegna þess að í því myndi felast einhverskonar viðurkenning á sekt. Með öðrum orðum; hann vill ekki gangast við sekt. Enda sagði hann sjálfur að samfélagið sem hann býr í sé bara klikkað af því að hann fær ekki vinnu við þjónustu- eða umönnunarstörf.“
Enginn viti í raun hversu margir þolendur Þóris séu, en nokkrir þeirra hafi stigið fram á samfélagsmiðlum frá því að Kveikur fór í loftið.
„Ein segist hafa verið 16 ára, tuttugu árum yngri en hann, hann hafi vitað það og notfært sér aldursmuninn. Önnur segist hafa verið 15 ára þegar hún fékk sendingar frá honum og að hann hafi áreitt hana í nokkur ár. Margar segjast þekkja konur sem hafi „lent í honum“ mjög ungar. Sumar segja frá því að þetta hafi verið alþekkt í ákveðnum hópum, mjög ungum konum hafi verið kennt að forðast hann. Konurnar sem ekki hafa stigið fram opinberlega eru í lokuðum hópum að deila reynslu sinni og sumar þeirra frásagna eru skelfilegri en orð fá lýst. Ég veit persónulega af nokkrum ungum konum sem hágrétu yfir sjónvarpinu í gær í fangi foreldra sinna en geta ekki stigið fram enda koma konur almennt ekki vel út úr slíku.“
Hildur segir að Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, hefði auðveldlega geta fundið einn eða fleiri þolanda Þóris til að ræða við, það hafi hún ekki gert.
„Það hefur ekki hvarflað að henni að leita til talsfólks þolenda kynbundins ofbeldis, þrátt fyrir að það sé staðreynd að fjöldi kvenna hafi horfið af vinnumarkaði og/eða þurft að flýja land vegna þess að gerendur þeirra voru fyrirferðarmiklir í nærsamfélagi þeirra og engin undankomuleið fyrir þær. Vitanlega hefði fjöldi fagfólks og þolenda getað vitnað um þetta en til þess fólks var ekki leitað.“
Bendir Hildur á að fjölmiðlar hafi undanfarna daga ekki átt erfitt með að finna viðmælendur – hvað hafi því klikkað hjá Kveik?
„Þessi Kveiksþáttur olli umtalsverðum skaða. Ekki bara fyrir þolendur viðmælandans (ýmist þá sem minnst var á, eða þau sem ekki var fjallað um) heldur fyrir þolendur kynbundins ofbeldis almennt. Með því að draga fram einn hálfsannleik sem túlkaður er af iðrunarlausum geranda og halda að það varpi einhverju ljósi á hvernig samfélagið tekur á gerendum almennt er alið á þolendaskömm og gerendameðvirkni sem var feykinóg af fyrir. Umfjöllun um úrvinnslu og meðferð mála er mikilvæg og getur leitt til góðs en þessi þáttur gerði ekkert nema auka á átök, sársauka og niðurlægingu þolenda. Bæði þolenda Þóris og annarra þolenda kynbundins ofbeldis.
Hugsum okkur aðeins um. Rifjum upp viðtalið við Ólaf Skúlason biskup frá árinu 1996. Þegar þetta nýjasta viðtal verður skoðað í ljósi sögunnar, hvaða afstöðu hefðir þú viljað hafa tekið, svona eftir á að hyggja?“