Covid-veiran er andstyggileg, ekki síst þegar hún refsar okkur fyrir að skemmta okkur. Þannig hljóta margir að hugsa sem sóttu Búningakaraoke-kvöld Marinós og Tryggva sem haldið var laugardagskvöldið 30. október í Gamla kaupfélaginu á Akranesi. Mörg smit sem hafa komið upp á Akranesi undanfarið eru rakin til þessarar skemmtunar enda er líklega fátt meira smitandi en samkoma af þessu tagi þar sem góðglaðir gestir deila hljóðnema í ástríðufullum söng.
Samkvæmt frétt RÚV hafa 75 smit greinst á Akranesi undanfarna daga og verður allt skólahald í bænum fellt niður á morgun. Karaoke-kvöldið umrædda var haldið í Gamla kaupfélaginu og segir viðburðastjórinn á staðnum, Ísólfur Haraldsson, að það hafi verið mikið líf og fjör í bænum um síðustu helgi.
Aðstandendur karaoke-kvöldsins eru samkvæmt heimildum báðir í sóttkví en DV tókst ekki að ná sambandi við þá við vinnslu fréttarinnar.
Á Facebook-viðburðasíðu viðburðarins var lofað dýrlegri skemmtun, en þar segir:
Það er loksins komið að því! Karaoke kvöööld, óóóóooooo
Þetta verður sniiild, óóóóoooo
Neeeinei við erum að föndra
Við Marinó og Tryggvi ætlum að henda í enn eitt Karaoke kvöldið en nú með breyttu og skemmtilegu sniði.
Þar sem að þetta verður 30. Október og á halloween helginni þá höfum við ákveðið að hafa búninga/halloween þema!
Það er auðvitað ekki skylda en það er lang skemmtilegast ef flestir mæta í búning
Drykkirnir okkar verða á tilboði út kvöldið eins og alltaf og þeir hljóma svona:
Marinó Special – tvöfaldur passoa í lemon breezer
Tryggvi Special – tvöfaldur beefeater strawberry í lemon tonic
Húsið mun opna kl 20:30
Dagskráin byrjar um 21
Happy hour frá 20:30-21:30
Og við pjakkarnir verðum eins lengi og Valdi leyfir
Hlökkum til að sjá ykkur og vonandi flesta í geggjuðum búningum því það er ekkert eðlilega gaman að djamma i búningum!
Smekkfyllum pleisið og höfum gaman saman