Reddum málinu er vinnustaðakeppni þar sem fyrirtæki og stofnanir keppast við að lesa texta í gegnum tölvu eða snjalltæki. Um er að ræða stuttar setningar á íslensku sem fara í gagnagrunn Samróms sem hægt er að nota til að kenna tækjum og tölvum að skilja íslensku. Keppnin er samstarfsverkefni Almannaróms, Háskólans í Reykjavík og Símans og fer fram á vefnum reddummalinu.is
Reddum málinu hefst mánudaginn 8. nóvember og lýkur þann 16. nóvember með verðlaunaafhendingu. Markmið keppninnar er að safna sem flestum raddsýnum, þ.e. lesnum setningum, á íslensku. Keppt verður í þremur flokkum, eftir stærð vinnustaða og verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin í hverjum flokki.
Tæknin teygir anga sína inn í alla kima samfélagsins, við erum orðin háð henni við leik og störf. Þróun tallausna í snjalltækjum er hröð og ljóst að tæknin muni snerta á enn fleiri þáttum okkar daglega lífs í náinni framtíð .
Við þurfum því að kenna tækjunum okkar að skilja íslensku, til að við getum talað við tækin á íslensku, og þau geti svarað okkur á íslensku. Aðeins þannig tryggjum við framtíð íslenskunnar og sjáum til þess að tungumálið okkar, saga og menning verði hluti af stafrænni framtíð.
Tungumál eru lifandi og breytast í takt við tíðarandann. Íslenskan er allskonar og mestu máli skiptir að við notum tungumálið.
Að tryggja framtíð íslenskunnar er því eitt mikilvægasta samstarfsverkefni þjóðarinnar. Gefum íslenskunni nokkrar mínútur og reddum málinu.