Sjúkraliðafélag Íslands hefur sent frá sér áskorun til formanna stjórnarflokkanna að taka á málefnum bráðamóttökunnar. Í áskorunni segir að allir Íslendingar njóti góðs af öflugri bráðamóttöku Landspítalans en að sama skapi bitnar það á öllum Íslendingum þegar neyðarástand ríkir á bráðamóttökunni.
Í gær birtu tugir sjúkraliða sem starfa á bráðamóttöku Landspítalans opið ákall til stjórnvalda. Þar var lýst starfsumhverfi sem enginn starfsmaður á að þurfa að starfa í. Þegar öryggi sjúklinga og velferð þeirra er stefnt í hættu skulu stjórnvöld hlusta. Sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk er sammála um að ástandið er óboðlegt.
Skora því sjúkraliðar á formenn stjórnarflokkanna að taka á málefnum bráðamóttökunnar í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem standa yfir.
„Almenningur á Íslandi vill það og allir stjórnmálaflokkar landsins hafa talað fyrir slíkum aðgerðum. Fyrst og fremst vantar meira fjármagn til að tryggja nauðsynlega mönnun og rétt flæði innan spítalans til framtíðar. Þegar sjúklingar fá ekki þá faglegu þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum er rík ástæða til að bregðast við, annars verður sjúklingum áfram stefnt í hættu á bráðamóttöku Landspítalans því þar ríkir neyðarástand. Nú er nóg komið!,“ segir í yfirlýsingunni.