Hulda Hrund Sigmundsdóttir, meðlimur í hópnum Öfgar, var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2, og ræddi þar um Kveiks-þátt gærkvöldsins. Óhætt er að segja að Íslendingar skiptist í fylkingar eftir að hafa séð viðtalið við leikarann Þóri Sæmundsson, fjöldi fólks finnur til með honum en ekki eru öll ánægð með viðtalið.
Hulda er ein þeirra sem ekki er ánægð með þáttinn. „Mér fannst þetta áhugavert viðtal út frá einhliða frásögn. Þegar ég horfi á Kveik þá býst ég við ákveðinni rannsóknarblaðamennsku en þarna var ég bara að horfa á drottningarviðtal við mann sem var ekki tilbúinn að axla ábyrgð á öllum sínum gjörðum, sagði bara part af því sem hann var tilbúinn að axla og Kveikur bara einhvern veginn vann út frá því,“ segir Hulda.
„Það er einhvern veginn það sem ég er að átta mig á í morgun þegar ég vakna, bara var þetta að gerast? Er þetta í alvöru það sem Kveikur var að senda út frá sér?“
Þá segir Hulda að ekki hafi allt verið satt sem fram kom í þættinum. „Þau segja í Kveik að hann „var ekki tekinn fyrir í #MeToo bylgjunni“, það er ekki rétt. Það komu alveg sögur um hann í #MeToo bylgjunni árið 2017. Svo eru lokaorð Þóru mjög áhugaverð, hún segir: „ef þú segir ekki satt þá náttúrulega mun það koma fram eftir þennan þátt“. Ég velti því fyrir mér, var þátturinn, afsakið, svona arfaslakur?“ spyr hún.
„Af því enn eina ferðina eiga þolendur að þrífa upp. Eiga þolendur, eiga aktívistar, eiga feminístar að taka boltann og vinna vinnuna? Er það ástæðan fyrir því að við horfðum á þetta drottningarviðtal í gær. Það er einhvern veginn svona tilfinningin sem ég fæ fyrir því.“
Í Kveiks-þættinum sagði Þórir að hann væri búinn að vera meira og minna atvinnulaus í fjögur ár síðan hann var rekinn úr Þjóðleikhúsinu. Þórir segir að hann hafi sótt um 200-300 vinnur en þrátt fyrir það fái hann enga vinnu. Því var velt upp í þættinum hvort og hvernig fólk sem brýtur af sér á að koma til baka í samfélagið.
Hulda er spurð út í þetta. „Það eru náttúrulega bara mannréttindi á Íslandi að hafa atvinnu en það eru hins vegar ekki mannréttindi á Íslandi að starfa í leikhúsi. Og það er náttúrulega bara spurning sem beina ætti til Vinnumálastofnunar en ekki til Öfga, af hverju maðurinn er ekki með atvinnu.“
Þáttastjórnandi Morgunútvarpsins spyr Huldu þá hvers vegna störf séu flokkuð með þessum hætti, hvers vegna það séu forréttindi að vinna í sviðsljósinu en ekki á öðrum stöðum. „Af hverju erum við að flokka störf með þessum hætti? Af hverju erum við að segja að það séu forréttindi að vera leikari en að hann má vinna á bensínstöð? Og notabene, hann segir í viðtalinu að hann megi ekki vinna á bensínstöð, hann fær ekki þau störf heldur. Af hverju erum við að segja um fólk sem hefur kannski sérfræðiþekkingu, hefur menntað sig í ákveðnu starfi, að það séu á einhvern hátt mikilvægari störf, eða að það séu meiri forréttindi að vinna við þau en í öðrum störfum?“
Hulda svarar þessu og tekur flugvirkja sem dæmi. „Af hverju verður reiði fólks svona ógeðslega mikil þegar þessir menn missa þessi forréttindi? Til dæmis ef flugvirki, nú tala ég um flugvirkja því pabbi minn er flugvirki, ef þeir brjóta af sér í starfi, það hefur komið fyrir að þeir hafi verið að nýta starfið sitt til að flytja inn fíkniefni, ekki allir en X flugvirkjar hafa gert það, en þá hafa þeir misst flugvirkjaréttindi sín. Og þeir hafa bara farið í ævilangt bann og ekki fengið að koma inn á flugvöll. Það heyrist ekki múkk í fólki að þarna sé verið að brjóta, því þeir hafa mjög langt háskólanám, það heyrist ekki múkk að þeir fái aldrei að vinna sem flugvirkjar aftur,“ segir hún.
„En ef leikari, fótboltamaður eða einhver dáður og dýrkaður einstaklingur missir þessi forréttindi að vera í sviðsljósinu þá verður allt „bananas“. Við erum að biðja um að þessir menn stígi til hliðar, vinni í sínum málum. Því við viljum náttúrulega betrunarsamfélag. Við viljum ekki að menn sem hafa, eins og í hans tilfelli, verið sekir um sín brot. Við viljum náttúrulega að hann leiti sér aðstoðar, að hann leiti sér hjálpar, sem við sáum að hann var til dæmis, hann sagðist vera að gera það á sínum tíma. Hann fór strax í blaðaviðtal, sagði „ég sendi hérna typpamyndir“ en síðan fór hann á Twitter og gerði svona „burner account“ þar sem hann var að áreita þolendur og femínista sem hét „Boring Gylfi Sig“. Þar var hann að segja til dæmis „heyrðu er ekki nauðgunarmenningarnótt á næsta leyti?“ en hann sýndi ekki iðrun á sínum gjörðum og var bara eins og við köllum í gæsalöppum að „trolla“. Við viljum náttúrulega að menn leiti sér aðstoðar og leiti sér hjálpar og faglegrar aðstoðar svo þeir geti aftur stigið fram, tekið pláss í þessu sýnilega atrennu sem er sviðsljósið.“