Brjánn Guðjónsson lagði í kvöld orð í belg í samfélagsumræðu um fyrirgefninguna. Hann tengdi ekki við orðræðu Sigríðar Þorgeirsdóttur, prófessors í heimspeki, sem var í viðtali við Kastljós í kvöld, en Sigríður telur að hugtakið „fyrirgefning“ eigi ekki við í umræðu um #metoo mál. Tilefni viðtalsins var viðtal Kveiks við leikarann Þóri Sæmundsson sem hefur upplifað útskúfun undanfarin ár eftir að hann sendi nektarmyndir til ólögráða (að líkindum) stúlkna á Snapchat árið 2017. Hefur viðtalið við leikarann orðið mjög umdeilt og í raun klofið íslenskan netheim niður í tvær fylkingar.
Brjánn Guðjónsson er faðir Birnu Brjánsdóttur sem Thomas Fredrik Møller Olsen myrti þann 14. janúar árið 2017. Var Thomas dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir morðið í september sama ár.
Brjánn ritaði pistil um fyrirgefninguna sem hann veitti DV leyfi til að endurbirta. Þar gerir hann skarpan greinarmun á fyrirgefningu og afsökun. Hann segist hafa fyrirgefið morðingjanum einfaldlega til að veita honum ekki rými í huga sér: „Ég ákvað að fyrirgefa honum. Í því fólst ekki afsökun. Sökin verður aldrei afmáð og megi hann rotna fyrir mér.“
ég byrjaði að horfa á Kastljós. þar var til viðtals Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki. eftir fyrsta svar hennar nennti ég ekki að hlusta lengur.
hún er ef til vill hámenntuð og fín, en hefur líklega enga reynslu af því sem hún er að tala um.
fyrirgefning og afsökun eru algerlega gerólíkir hlutir.
afsökun er að líta svo á að sök einhvers gagnvart manni verði afmáð. eitthvað sem einhver gerði á manns hlut muni maður eftirleiðis líta framhjá og jafnvel gleyma með tímanum.
svona eins og ef einhver gleymdi að sækja mann út á stoppistöð.
fyrirgefning er allt annað og fyrirgefning felur alls ekki í sér afsökun.
fyrirgefning er að láta af hatri eða öðrum vondum tilfinningum í garð einhvers sem hefur gert á þinn hlut.
þetta tvennt er svo gersamlega ólíkt að ég þurfti að spóla til baka og hlusta aftur á hvað prófessorinn sagði.
maður myrti dóttur mína. yndið mitt. ég ákvað að fyrirgefa honum. í því fólst ekki afsökun. sökin verður aldrei afmáð og megi hann rotna fyrir mér.
ég ætla samt ekki að skaffa honum herbergi í hausnum á mér, sem ég myndi gera með að vera uppfullur af hatri sem myndi gera engum skaða nema mér sjálfum.
þannig að ég ákvað að fyrirgefa (ekki afsaka) til að losna við hann.