Nú líður varla sú vika þar sem fjölmiðlar flytja ekki fréttir af nýjum myglumálum. Staðan á leikskólum Reykjavíkur er þannig að ef þeir eru ekki lokaðir vegna Covid, þá er líklega verið að skella þeim í lás vegna myglu. Raunar segja gárungar að fljótlegra væri að telja upp þá skóla borgarinnar sem eru opnir, en þá sem eru lokaðir að hluta eða öllu leyti.
Þá sagði DV frá því fyrr í dag að skjólstæðingar Félagsbústaða þurftu frá að hverfa vegna myglu í húsi við Miklubraut hjá J.L húsinu.
Þetta eru kunnuglegar sögur.
Orkuveituhúsið er ónýtt. Verið það frá upphafi. Á vef sjálfrar Orkuveitunnar, sem byggði ónýta húsið, segir: „Við lestur matsgerðarinnar sést greinilega að margt brást við hönnun og uppsetningu útveggja hússins. Eftirliti með framkvæmdinni var einnig ábótavant auk þess sem prófanir á útveggjunum voru ekki gerðar þó þess hafi verið krafist.“
Landspítalinn er ónýtur. 20 manns leita til læknis á ári vegna myglu í húsakynnum spítalans. Á þremur árum hefur spítalinn eytt 300 milljónum í viðhald vegna rakaskemmda. Veikindafjarvistir starfsmanna spítalans kostar ríkið aðrar 30 milljónir á ári. Fleiri deildir Landspítalans hafa reyndar legið undir skemmdum vegna myglu. Árið 2017 stigu stjórnendur Barna- og unglingageðdeildarinnar fram og lýstu sig ráðþrota vegna myglu. BHM hafði þá skoðað vinnuaðstöðu félagsmanna sinna innan geðdeildarinnar og krafist þess að Vinnueftirlitið lokaði húsinu.
Við Skólagerði í Kópavogi stendur nú auð lóð þar sem einu sinni stóð grútmyglaður Kársnesskóli. Nýr skóli kostar 4,1 milljarð.
Framtíð Fossvogsskóla í Reykjavík er enn óráðin, en þremur mánuðum áður en húsið allt var úrskurðað óhæft til kennslu, og jafnvel ónýtt, fékk það næsthæstu einkunn í úttekt heilbrigðiseftirlits borgarinnar.
Sambærilegar sögur er svo að segja af Hagaskóla, Breiðholtsskóla, Ártúnsskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar, Varmárskóla, Flóaskóla, Álfhólsskóla, Grundaskóla, Brekkuskóla, Oddeyrarskóla, Lundarskóla, Grunnskóla Ísafjarðar, Háskólanum á Akureyri, Tækniskólanum, Korpuskóla, Nesskóla og Myllubakkaskóla.
Svo eru það leikskólarnir. Efstihjalli, Austurkór, Kvistaborg, Ægisborg, Leikholt, Laugargerði og Álfaborg eru aðeins örfáir þeirra sem hafa verið lokaðir að hluta eða fullu vegna myglu undanfarin misseri.
Er von að spurt sé á götunni hvort hið opinbera standi hreinlega undir þeirri ábyrgð að eiga fasteignir?
Í Svíþjóð, fyrirheitna landi fylgismanna aukinnar samneyslu og jafnaðarmennsku, hefur verið farin sú leið að setja allar fasteignir í ríkisfasteignafélag sem opinberar stofnanir leigja svo hentug húsnæði af. Er það kannski eitthvað?