Fjölmiðlakonan þjóðþekkta Marta María Jónasdóttir, gjarnan kennd við Smartland, hefur tekið upp eftirnafn eiginmanns síns, Páls Winkel, fangelsismálastjóra. Í þjóðskrá heitir fjölmiðlakonan nú Marta María Winkel Jónasdóttir en það vakti síðan eftirtekt þegar hún breytti nafni sínu á Facebook á dögunum. Þar heitir Smartlandsdrottningin nú einfaldlega Marta María Winkel.
Marta María og Páll fóru að stinga saman nefjum í lok árs 2015 og urðu eðli málsins samkvæmt umsvifalaust eitt af stjörnupörum landsins. Þau trúlofuðu sig síðan árið 2017.
Það hefur síðan verið skammt stórra högga á milli hjá parinu á þessu ári. Í byrjun árs settu þau heimili sitt í Fossvogi á sölu og í febrúar fjárfestu þau í draumahúsi á Álftanesi þar sem stórfenglegt útsýni blasir við þeim dag hvern.
Um miðjan ágúst síðastliðinn gengu þau síðan í það heilaga í Bessastaðakirkju.
„Við féllum fyrir hvort öðru og ákváðum á fyrsta deiti að verða hjón. Í dag játuðumst við hvort öðru og ætlum að stíga lífsins veg saman,“ sagði Marta María í einlægri færslu þegar hún deildi myndum frá athöfninni.