Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum ráðherra, hefur verið gert að sök að hafa kynferðislega áreitt Carmen Jóhannsdóttur á Spáni í júní 2018 og lauk nýlega aðalmeðferð málsins sem héraðssaksóknari höfðaði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Jón hefur ný birt pistil á vef Vísis þar sem hann fer yfir málið og þær sakir sem á hann eru bornar. Þar kallar hann mál sitt „rassastrokumál“ og segir það „sólund á pappír, tíma og fjármunum skattborgara.“
„Til upprifjunar ber að nefna helstu persónur og leikendur. Gestgjafarnir (við Bryndís), gestirnir (Laufey Ósk og Carmen Jósefa). Og ekki má gleyma handhöfum ákæruvaldsins (varasaksóknarar: Anna Barbara Andradóttir, Dröfn Kjærnested, Kolbrún Benediktsdóttir) og fulltrúi lögreglu, sem stýrði yfirheyrslum, Rannveig Einarsdóttir. Það er við hæfi, að eini karlmaðurinn, sem kemur þarna við sögu, er í hlutverki sakbornings! Alla vega fer ekki mikið fyrir karlaveldinu þarna.“
Jón Baldvin segir rannsóknarspurninguna auðvelda – hún sé hvort hann hafi snert rass Carmenar eða ekki. Þar beri honum og kæranda ekki saman sem og vitnum.
Jón Baldvin segir tvö vitni styðja hans framburð og þeim beri saman um aðalatriði. Ákæruvaldið hafi samt ákveðið að tortryggja framburð Bryndísar Schram þar sem hún sé eiginkona sakbornings.
„En ákæruvaldið gerir engar athugasemdir við, að kærandi og eina vitnið, sem var á staðnum og styður framburð þess, eru mæðgur. Hvað þá heldur, að þrjú aukavitni voru kölluð til,þ.á.m. systir kæranda og fyrrverandi sambýlismaður. Þau eiga það líka sameiginlegt að hafa verið víðs fjarri vettvangi og geta þ.a.l. ekki borið vitni um eitt eða neitt, sem þar gerðist.“
Eftir standi eitt vitni sem sé ekki tengt Jóni Baldvini eða Carmen.
„Hugrún Auður Jónsdóttir heitir hún og eiðsvarinn vitnisburður hennar hljóðar svo:
„Ég undirrituð (nafn og kennitala) staðfesti hér með, að ég var gestur við borðhald á heimili Bryndísar og Jóns Baldvins í Salobrena, laugardaginn 16. Júní, 2018. Þegar sest var að borðum, sat Jón Baldvin mér á vinstri hönd. Ég sá því allt sem fram fór við borðhaldið. Ásakanir um, að Jón Baldvin hafi áreitt gestkomandi konu við upphaf borðhalds, eru HREINN TILBÚNINGUR OG TÓMT RUGL. Slíkt hefði ekki getað farið fram hjá mér. Þetta staðfesti ég með undirskrift minni“.“
Jón Baldvin veltir því fyrir sér hvers vegna með tilliti til framburðar Hugrúnar málinu hafi ekki verið vísað frá.
Jón Baldvin fer yfir aðstæður í matarboðinu þar sem brotið á að hafa átt sér stað og bendir á að honum sé gert að sök að hafa notað hægri hönd til að strjúka rass kæranda er hún var að skenkja í glös gestanna.
„Hver trúir því, að gestkomandi kona, sem þekkir ekki til gestgjafa, rjúki til og taki ófrjálsri hendi hvítvínsflösku í eigu gestgjafa og fari að hella í glös, óumbeðin? Vill einhver ætla henni slíkan ruddaskap?“
Jón Baldvin segir það ekki standast skoðun þar sem hann hafi sjálfur hellt í glös við upphaf borðhalds.
Hann veltir upp þeirri spurningu að fyrst málinu hafi ekki verið vísað frá nú þegar, hvort ákæruvaldið sé að nota það í einhvers konar stríði gegn „feðraveldinu.“
„Þar með ætti þessu máli að vera lokið samkvæmt þeirri ófrávíkjanlegu grundvallarreglu ákæruvaldsins, að kæra ekki nema yfirgnæfandi líkur séu á sakfellingu fyrir refsiverða háttsemi. En þá vaknar spurninging: Eru konurnar – handhafar ákæruvaldsins í þessu máli – að breyta því, í ýfirlýstu stríði gegn „feðraveldinu“ svokallaða?“
Jón veltir því jafnframt fyrir sér hvort það séu aðilar, aðrir en Carmen og móðir hennar, sem standa að baki kærunni.
Jón bendir á að móðir Carmenar, Laufey, sé æskuvinkona dóttur hans, Aldísar Schram, og sé flestum kunnugt um að hún hafi lengi hatað foreldra sína og fjölskyldu. Vinslit hafi þó orðið milli Laufeyjar og Aldísar þegar sú fyrrnefnda neitaði að kannast við að Jón Baldvin hafi áreitt hana.
Jón Baldvin rekur að Laufey hafi þó ræktað vináttu við Bryndísi og hann í gegnum árin og meðal annars lýst yfir stuðningi við þau eftir að Aldís sakaði föður sinn um kynferðisofbeldi.
Jón Baldvin segir einnig að Laufey hafi gengist við því fyrir matarboðið á Spáni að vera á sterkum verkjalyfjum sem hún mætti ekki drekka ofan í. Þetta umrædda kvöld hafi hún þó drukkið sterka drykki „ótæpilega“ og grunar Jóni Baldvini að það hafi valdið umskiptum hennar frá því að vera vinur þeirra í að vera á móti þeim.
„Var hún kannski að drekka í sig kjark? Allavega þarfnast það skýringa, hvernig vinarþel breyttist í einu vetfangi í svikabrigsl og bölbænir.
Sjá einnig: „Jón Baldvin, þú átt að biðja dóttur mína afsökunar. Þú káfaðir á henni. Ég sá það“
Jón Baldvin veltir því fyrir sér hvort að gestirnir í matarboðinu umrætt kvöld hafi komið þangað gagngert til að geta ásakað Jón Baldvin um kynferðisbrot.
„Sjálfur var ég öskureiður yfir þessari beisku blöndu af óheilindum og dónaskap, sem ekkert okkar átti von á, né taldi sig verðskulda. Og Bryndís var niðurbrotin og ekki mönnum sinnandi næstu dægrin. Það er svo umhugsunarefni, að fyrr en varði voru gestirnir á bak og burt með allt sitt hafurtask, eins og aldrei hefði staðið til að gista yfir helgina. Innrásinni var lokið. En stóðu gestir okkar einir að verki? Eða stóðu aðrir að baki? Þeirri spurningu er svarað í næstu grein.“
Grein Jóns Baldvins í heild sinni