fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: „Afléttingartregðan“

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 1. nóvember 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Farsóttinni hafa fylgt alls kyns leiðindi, þar á meðal yfirþyrmandi skriffinska og nýtt stofnanalegt orðalag sem sker í eyru þeirra sem helst vilja bara heyra vandað mál. Nú er meira að segja farið að tala um „landamæri Íslands“ þrátt fyrir að Ísland eigi engin landamæri að öðru ríki (landamæri er staður þar sem tvö lönd mætast). Síðan fylgja stofnanalegar langlokur eins og „landamæraskimun“ og þar fram eftir götunum. Ein orðasamsetningin sem tengist farsóttinni er „afléttingartregða“ sem merkir tregðu stjórnvalda við að aflétta þeim höftum sem þau hafa sett á í nafni sóttvarna. Svo höfundarréttar sé gætt þá mun orðasmiðurinn vera Andrea Sigurðardóttir blaðamaður.

Hvað með almenn mannréttindi?

„Afléttingartregðan“ birtist helst úti á Keflavíkurflugvelli en eins og flestir þekkja taka starfsmenn stjórnvalda sýni úr öllum farþegum sem koma til landsins sem eru miklu harðari aðgerðir en á hinum Norðurlöndunum og hafa ýmsir bent á hættu samfara því að tekin séu sýni úr svo mörgum þar sem prófin gefa ekki óyggjandi niðurstöður. Við blasir að fjöldi fólks hefur verið sviptur frelsi að ósekju vegna þessa.

Það leiðir aftur hugann að því hversu lítið hefur farið fyrir umræðu um mannréttindi tengt sóttvörnum. (Undantekning frá því var þegar héraðsdómur dæmdi skyldudvöl í sóttvarnarhúsi ólögmæta sl. vor). En svo allrar sanngirni sé gætt þá ber stjórnvöldum vitaskuld að tryggja líf og heilsu borgaranna en við allar aðgerðir í slíku efni þarf að gæta meðalhófs. Og sér í lagi verður að huga að meðalhófi þar sem einangrun og sóttkví felur í sér frelsissviptingu — skerðingu á persónufrelsi sem nýtur verndar 67. gr. stjórnarskrár og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Gleymum ekki að frelsissvipting er meðal alvarlegustu skerðinga á mannréttindum og því sérlega mikilvægt að ekki sé gengið lengra en þörf krefur.

Þá má líka spyrja sig hvort þeim fjármunum sem varið er til að taka sýni af öllum við komuna til landsins og greina þau á tilraunastofu yrði ekki betur varið annars staðar í heilbrigðiskerfinu.

Gríðarlegt tap þjóðarbúsins

Samtök ferðaþjónustunnar bentu á það á dögunum að harðari takmarkanir hér en í öðrum löndum Norðurálfu gætu skilað þjóðarbúinu allt að 140 milljörðum króna lægri útflutningstekjum en ella. Þetta er byggt á útreikningum fengnum úr gögnum sem sýna að nýting flugfélaga sé allt að fimmtungi lægri á millilandaflugvöllum þar sem viðhafðar eru takmarkanir. Til að setja þetta í samhengi þá er búist við að loðnuvertíð næsta fiskveiðiárs — hin stærsta í tvo áratugi — muni skila þjóðarbúinu 50 milljörðum króna í útflutningstekjur.

Þetta er hinn blákaldi veruleiki en Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að breska flugfélagið Jet2 hefði hætt við að fljúga hingað til lands næsta sumar vegna þess að ekki væri ljóst hvernig sóttvarnartakmörkunum á Keflavíkurflugvelli yrði háttað til langs tíma. Þá greindi skandinavíska flugfélagið SAS frá því fyrir skemmstu að gert yrði hlé á áætlunarflugi frá Noregi hingað til lands vegna krafna um framvísun vottorðs sem sýndi neikvæða niðurstöðu eftir rannsókn á sýni úr öndunarvegi en frétt um málið birtist á vef Túrista.

Og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í viðtali við blaðamann Fréttablaðsins á dögunum það mjög óheppilegt hvernig Íslendingar skæru sig úr varðandi sóttvarnarráðstafanir við komuna til landsins. Enginn vafi léki á að þetta hefði áhrif á ferðavilja — aukið flækjustig og kostnaður drægi úr eftirspurn. Ísland þyrfti að standast samkeppni við önnur ferðamannalönd.

Við blasir að óvenju harðar aðgerðir við komufarþega og stefnuleysi í þessum efnum hefur nú þegar haft umtalsverðan skaða í för með sér yfir þjóðarbúið.

Pólitíska forystu skortir

Engum íslenskum ríkisborgara verður meinað að koma til landsins eins og stendur í stjórnarskránni og sú regla er alveg fortakslaus. Allar tálmanir á því að íslenskir ríkisborgarar komi til landsins verður að skoða í þessu ljósi, þar á meðal skilyrðislausa kröfu um að menn skrái ýmsar persónuupplýsingar um sig á vef stjórnvalda og sýni vottorð en í þessu efni er ekkert meðalhóf viðhaft — engu breytir þó menn séu að koma frá löndum þar sem miklu færri smit greinast en hér á landi — allir eru beittir sömu hörkunni.

Íslensk stjórnvöld þurfa að svara þeirri spurningi hvers vegna þau telji þörf á miklu viðurhlutameiri aðgerðum hér við komuna til landsins heldur en tíðkast í nágrannalöndunum. — Hvers vegna þau aflétta ekki höftunum líkt og þau ríki sem við helst berum okkar saman við. Þetta leiðir hugann að því hversu oft getur reynst erfitt að endurheimta réttindi sem ríkisvaldið hefur svipt borgarana. Gjaldeyrishöft sem sett voru á „til tveggja vikna“ haustið 2008 vörðu árum saman svo dæmi sé tekið. Ráðherrar hafa líka fram til þessa skýlt sér bakvið sóttvarnarlækni og aðra embættismenn — en þeir horfa vitaskuld bara til þeirra þátta sem snerta sinn starfsvettvang og nú heyrast jafnvel raddir innan úr kerfinu sem segja rétt að borgararnir verði sviptir mannréttindum meðan ríkisspítalar glíma við rekstrarvanda. Er nema von að umræðan verði svona galin þegar nálega enginn stjórnmálamaður tekur að sér að gerast talsmaður almennra mannréttinda en ég hef áður rakið það hér í pistli hvernig íslensk stjórnmál einkennast miklu frekar af stjórnlyndi en frjálslyndi. Grundvallaratriðin eru varla til umræðu.

Af öllu ofansögðu má ljóst vera að það skortir raunverulega pólitíska forystu í sóttvarnarmálum — forystu sem ekki fékkst með ríkisstjórninni á síðasta kjörtímabili og því miður er lítil von til að breyting verði á haldi sömu flokkar áfram stjórnarsamstarfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið