Líkt og flestar helgar var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gær. Mikið var um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna og eitthvað var um ofbeldisbrot, þó ekki jafn mikið og hefur verið að undanförnu.
Ofbeldisbrotin sem lögreglan segir frá í dagbók sinni frá gærkvöldinu voru aðeins þrjú talsins. Klukkan rúmlega 22 í gær var ungur maður í annarlegu ástandi handtekinn við veitingahús í 101 Reykjavík. „Tilkynnt hafði verið um manninn að lemja dyravörð og var hann í tökum er lögregla kom á vettvang,“ segir lögreglan en maðurinn var sökum ástands vistaður í fangageymslu lögreglu.
Skömmu fyrir miðnætti var maður í annarlegu ástandi handtekinn í 105 Reykjavík en maðurinn er sagður hafa verið að hóta fólki með hamri. Sökum ástands var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.
Klukkan rúmlega 1 í nótt var svo maður í annarlegu ástandi handtekinn í fjölbýlishúsi í 200 Kópavogi. Maðurinn er grunaður um brot á vopnalögum og var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.
Þá segir lögreglan frá tveimur slysum. Það fyrra átti sér stað klukkan rúmlega 19 í Mosfellsbænum. Sá sem tilkynnti slysið var úti að hlaupa og sá mann liggjandi í götunni. Maðurinn hafði dottið af reiðhjóli og var með áverka í andliti. „Maðurinn hafði verið með hjálm á höfði en mikil hálka var á vettvangi,“ segir lögreglan en maðurinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild Landspítalans til aðhlynningar.
Hitt slysið átti sér stað klukkan rúmlega 3 í nótt. Þar ók ökumaður bifreiðar á steinvegg í 101 Reykjavík. Ökumaðurinn var handtekinn, grunaður um ölvun við akstur og akstur án ökuréttinda, það er að hann hafði aldrei fengið ökuréttindi. Ökumaðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.