„Ótrúlega þakklát í kvöld með Telmu Líf sofandi inni í herbergi,“ segir Guðbjörg Gunnlaugsdóttir, foreldri Telmu sem var týnd í um einn og hálfan sólarhring í Alicante-héraði á Spáni í vikunni.
DV greindi fyrst frá hvarfi Telmu Lífar á þriðjudagskvöldið en foreldrar hennar, Guðbjörg Gunnlaugsdóttir og Ingi Karl Sigríðarson, voru dugleg við að veita fjölmiðlum upplýsingar um málið og deila á samfélagsmiðlum enda gerðu þau allt sem þau gátu til að dóttir þeirra gæti fundist.
Þau Guðbjörgu og Inga grunar sterklega að Telmu, sem er fædd árið 2003 og býr á Benidorm, hafi verið byrluð ólyfjan á bar á mánudagskvöldið. Var hún lögð inn á sjúkrahús en gekk út af sjúkrahúsinu klukkan hálfsex á þriðjudagsmorguninn. Skildi hún þar eftir síma sinn og skilríki. Í tösku hennar fannst miði með símanúmerum foreldra hennar og þess vegna gat spítalinn haft samband við þau.
Guðbjörg segir í færslu sinni í kvöld:
„Þakklæti er fyrst og fremst til allra 3. lögregludeildanna á Spáni sem við Ingi Karl Sigríðarson erum búin að vera í miklum samskiptum við. Bæði þeir sem hjálpuðu henni á Benidorm og komu henni undir læknishendur og þeir sem hjálpuðu okkur og leituðu og eru nú að rannsaka málið. Munum aldrei getað þakkað nóg fyrir okkur. Þökkum öllum allan stuðning, hlýhug og kærleika. Fer full af þakklæti að sofa.“