Rafmagnslaust varð í Háskólanum í Reykjavík í dag. Afleiðingar rafmagnsleysisins voru meðal annars þær að nemandi við skólann læstist inni í hjólageymslu skólans í um 30 mínútur.
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist, þetta er í þriðja skipti sem þetta gerist á stuttum tíma,“ segir annar ónefndur nemandi við skólann sem DV ræddi við vegna málsins.
Nemandinn á þá við rafmagnsleysið, ekki að það hafi áður gerst að einhver læsist í hjólageymslunni, en ekki er vitað til þess að það hafi gerst áður.
„Þetta er búið að gerast nokkrum sinnum, einu sinni um nótt og einu sinni um morgun þegar ég var í tíma. Þá hætti bara allt að virka, loftræstikerfið, tölvurnar og allt, það þurfti bara að hætta kennslu.“
DV ræddi við annan nemanda í skólanum um rafmagnsleysið og sá varð var við nemandann sem læstist inni í hjólageymslunni. „Þessi gæji var fastur í hálftíma í hjólageymslunni, greyið kallinn.“