Tónlistarmaðurinn Ingimar Bjarnason hefur afar jákvæða sögu að segja af samskiptum sínum við hinn þrautreynda útvarpsmann Rásar 2, Ólaf Pál Gunnarsson, sem jafnan er kallaði Óli Palli. Saga Ingimars er áhugavert innlegg inn í umræðu sem sprottið hefur upp nýlega, um meint óæskileg hagsmunatengsl í þeim tilvikum þegar starfandi tónlistarmenn eru jafnhliða því dagskrárgerðarfólk hjá Ríkisútvarpinu.
DV greindi frá þessu um síðustu helgi. Jakob Bjarnar Grétarson, blaðamaður á Vísir.is, hóf þessa umræðu og sagði í pistli sínum:
„Fæstum þætti eðlilegt ef ég starfrækti veitingastað á kvöldin en fjallaði sem blaðamaður um veitingageirann vítt og breytt á daginn. Og gæfi mig út fyrir að vera faglegur í því. En þetta er nákvæmlega sambærilegt við það sem er að gerast hjá Ríkisútvarpinu og hefur tíðkast lengi. Þar eru ýmsir dagskrárgerðarmenn sem samhliða starfa sem tónlistarmenn á kvöldin. Þarna eru auðvitað samansúrruð hagsmunatengsl. Ef á að vera hægt að verja þennan ríkisrekstur á samkeppnisvettvangi þá verður stofnunin að vera fagleg. En það er hún auðvitað ekki og skákar í því skálkaskjólinu að Íslendingar eru prinsipplaus þjóð. Auðvitað er þetta ekkert stórmál í hugum flestra en ef við föllumst á að þetta sé í góðu lagi hvernig á þá að vera hægt með góðu móti að gagnrýna spillingu þegar meiri sameiginlegir hagsmunir eru undir? Prinsipp eru ekki umsemjanlegt fyrirbæri, eða spurning um hvar á að setja línuna. (Ég geri ekki ráð fyrir að fá mörg læk á þennan status ef nokkurt — hún verður alltaf þykk þögnin þegar ég impra á þessu.)“
Áður en lengra er haldið er rétt að halda því rækilega til haga að Jakob hélt því hvergi fram að nokkur starfsmaður RÚV hefði misnotað aðstöðu sínu en hann telur hættuna á hagsmunaárekstri vera til staðar.
Atli Þór Fanndal, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, rekur hins vegar 20 ára gamla sögu, sem lesa má hér undir fréttinni (tengill), og hann telur dæmi um klíkuskap á RÚV. Hann segir jafnframt:
„RÚV er ekkert spillingabæli né hornsteinn góðra vinnubragða. RÚV er bara íslensk menningarstofnun í landi þar sem fólk í ábyrgðarstöðu ber almennt litla virðingu fyrir ábyrgð sinni og leiðist allt þetta pjatt sem fylgir baráttunni endalausu og ósigrandi fyrir heiðarleika, gagnsæi, fjölbreytni og mest finnst þeim baráttan fyrir þolinmæði.“
Tónlistarmaðurinn Ingimar Bjarnason er með hreint út sagt hjartnæmt innlegg í þessa umræðu, en þar rifjar hann upp óvæntar og höfðinglegar móttökur sem óþekkt hljómsveit sem hann var í, Örkuml, fékk hjá Óla Palla, fyrir 20 árum. Ingimar skrifar:
„Nú veit ég ekkert um þína sögu Thor. En, má til með að lýsa minni reynslu af Rás 2 frá svipuðum tíma. Á þeim árum spilaði ég með hljómsveitinni Örkuml. Við vorum pönkhljómsveit á tímum sem það þótti ekkert töff að vera pönkhljómsveit, á popplandakorti DV á þessum tíma vorum við ískaldir. Einhverntíman datt einhverjum í bandinu að biðja Óla Palla um að við fengjum að spila læf í Popplandi og heldurðu að hann hafi ekki sagt já! Við þekktum engan þar innanhúss. Nokkrum mánuðum seinna var hann farinn að spila ábreiðu sem við gerðum af Villa Vill laginu Einni þér ann ég. Við báðum hann ekki um það, okkur datt ekki í hug að nokkur vildi spila okkur í útvarpi. Eftir það fórum við að heyra lög okkar hjá Rás 2 þegar við gáfum út tónlist og við fengum viðtöl sem og á flestum öðrum fjölmiðlum. En Rás 2 var eina útvarpsstöðin sem spilaði okkur. Það var líka alltaf best að koma þangað því að fólkið þar vann vinnuna sína og vissu hverjir voru að koma þangað í viðtal. Reynslan var bara sú að í einkamiðlunum voru menn bara með fúsk og við fengum þar leiðinlegar staðalspurningar. En á Rás 2 og svo Mogganum var fólk sem var alltaf undirbúið. Og ég tek það fram aftur að við þekktum ekki neinn hjá RÚV og við báðum aldrei um spilun.“
Sumsé, hin óþekkta hljómsveit fékk reglulegu spilun á Rás 2 án þess að hafa beðið um það og án þess að hafa nokkur tengsl við stofnunina. Var þetta í kringum aldamótin en í stuttu spjalli við DV segir Ingimar að hann hafi verið í Örkuml frá árinu 1998 og þar til hljómsveitin hætti árið 2002. Á þessum tíma var pönk ekki í tísku en þetta var pönksveit og því var ekki útlit fyrir að hún fengi mikla spilun í útvarpi. Afstaða Rásar 2 gjörbreytti því.
Ingimar býr í Connecticut í BNA og hefur búið þar frá árinu 2006. Hann segist að mestu hafa hætt tónlistariðkun frá þeim tíma en hann hefur þó undanfarið verið að spila í hljómsveit sem heitir Unionvillains og nýlega gekk hann í bandið Devins.
Samsett mynd með fréttinni sýnir Ingimar og Örkuml að störfum í kringum aldamótin.