Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Ráðuneytið hélt upplýsingafund fyrir tæpum hálfum mánuði með stjórn íbúaráðsins og bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Morgunblaðið hefur eftir Þorsteini Stefánssyni, formanni íbúaráðsins, að fulltrúar ráðuneytisins hafi svarað ýmsum spurningum og kynnt áform um öryggisvistun. „Þetta var upplýsandi fundur og mörgum spurningum var kastað fram. Það var ekki hægt að svara þeim öllum á fundinum og við bíðum eftir svörum,“ er haft eftir honum.
Hann sagði fyrirhugað að halda annan fund þegar svör hafa borist við spurningunum. Það sé nauðsynlegt því í ljós hafi komið á fundinum að bæjaryfirvöld vissu ekki meira um málið en íbúaráðið.
Hann sagði að íbúaráðið vilji að skoðað verði hvort hægt sé að velja annan stað undir þessa starfsemi, á lóð sem er fjær íbúum en sú lóð sem nú er rætt um. Hún er í um 500-600 metra fjarlægð frá núverandi byggð í Innri-Njarðvík en 300 metra frá fyrirhugaðri byggð samkvæmt skipulagi.
Fyrirhugað er að koma upp vistunarúrræði fyrir 6-7 manns og að minnst 30 starfsmenn sinni þeim sem þurfa á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda.