Helgi Jóhannesson, yfirlögfræðingur Landsvirkjunar, hefur samið um starfslok hjá Landsvirkjun eftir tveggja ára starf. Þetta staðfestir Ragnhildur Sverrisdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, í samtali við DV.
Aðspurð um ástæðu starfsloka sagði Ragnhildur að Landsvirkjun tjái sig ekki um málefni einstakra starfsmanna, hvort sem það snerti starfslok þeirra eða eitthvað annað.
Áður en Helgi fór til Landsvirkjunar hafði hann um árabil verið meðal eigenda LEX lögmannsstofu. Hann var að auki stjórnarmaður í Landsvirkjun á árunum 2014-2017 og eins stjórnarmaður og formaður í Lögfræðingafélagi Íslands sem og í Lögmannafélagi Íslands.