fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Sláandi fjöldi Íslendinga stígur fram eftir byrlun: „Þeir voru að draga mig inn í leigubíl“ – „Helvítis ógeðið hefði getað drepið mig“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 25. október 2021 19:30

Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarið hafa byrlanir verið mikið til umræðu hér á landi og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum. Segja má að vitundarvakning sé í gangi en fjöldi fólks hefur stigið fram og sagt frá sinni reynslu af byrlunum. Viðbragðsaðilar hafa verið harðlega gagnrýndir í umræðunni fyrir að trúa ekki þolendum heldur skrifa eitrunareinkenni þeirra á áfengisneyslu. 

Hulda Hrund Sigmundsdóttir, leikkona og meðlimur hópsins Öfgar, var gestur í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í morgun og lýsti því þegar henni var byrlað ólyfjan á skemmtistað. Hún segir frá því í þættinum að maður nokkur hafi verið afar ágengur við hana og vildi kaupa drykk handa henni.

Eftir að maðurinn hafði suðað í henni ákvað Hulda að gefa eftir og fá drykk með því skilyrði að drykkurinn yrði í flösku og að hún myndi sjálf taka við honum á barnum. Hulda tók við flöskunni af barþjóninum og á næsta korteri drakk hún úr flöskunni, vinkonur hennar fengu sér einnig sopa úr henni.

Vinkonur Huldu fóru eftir þetta, hún segir þær strax hafa orðið veikar eftir nokkra sopa. Sjálf var Hulda orðin algjörlega dofin en hún heyrði samt allt sem var að gerast og sá aðeins hvað var í gangi. Á þessum tímapunkti stóð hún með manninum sem hafði keypt drykkinn.

„Ég skynjaði ekkert hvað var í gangi. Þetta var ný tilfinning. Þetta var eins og ég vær föst í bollunum í gamla daga í þessu tívolíi sem mætti í Hafnarfjörð. Ég var þar bara inni í mér.“

Sem betur fer hringdi vinur Huldu í hana á þessum tímapunkti og heyrði að eitthvað var bogið. Hann hljóp því til hennar og kom að henni með ágenga manninum sem hafði umkringt hana ásamt vinum sínum. „Þeir voru að draga mig inn í leigubíl,“ segir Hulda en vinur hennar þóttist vera bróðir hennar og bjargaði henni frá mönnunum.

Fjöldi fólks opnar sig um sína reynslu af byrlunum

Hulda er langt frá því að vera eini Íslendingurinn sem hefur lent í þessu, það kom skýrt fram í svörum við færslu sem hún birti á Twitter-síðu sinni í gær.

Færslan hefur vakið gífurlega athygli en skrifaðar hafa verið rúmlega 130 athugasemdir við hana. Fjöldi fólks segir í athugasemdunum frá því hvar það var þegar því var byrlað og ljóst er að ástandið er ekki nýtt af nálinni og að það einskorðist ekki við tiltekna skemmtistaði heldur geti átt sér stað hvar og hvenær sem er – meðal annars í heimahúsum, á útihátíðum, þorrablótum og svona mætti lengi áfram telja. Gerendur eru oft óþekktir, ókunnugir þolendum en einnig geta það verið vinir og kunningjar.

Mismunandi er hvort fólk greini bara frá staðsetningu byrlunarinnar eða láti frekari lýsingar fylgja með. Fjölmörg segja frá sinni reynslu undir nafni en svo eru önnur sem kjósa að segja nafnlaust frá sinni reynslu. „Ég lenti í gaur 1997 sem 2005 var dæmdur fyrir 3 nauðganir af 5 sem kærðu, við erum miklu fleiri. Hann byrlaði okkur heima hjá sér, var búinn að höstla en vildi hafa okkur máttlausar og viljalausar,“ segir til dæmis ein kona undir nafnleynd.

Viðbragðsaðilar gagnrýndir

Viðbrögð viðbragðsaðila við byrlunum hafa verið harðlega gagnrýnd í umræðunni sem hefur átt sér stað að undanförnu. Svo virðist vera sem fjöldi fólks hafi lent í því að vera byrlað en ekki fengið góðar móttökur frá lögreglu, sjúkraflutningafólki og læknum.

Kona nokkur, sem var 37 ára gömul tveggja barna móðir þegar henni var byrlað, segir frá sinni upplifun undir nafnleynd í athugasemd við færslu Huldu. Konan var stödd á skemmtistað í miðbænum með samstarfsfólki sínu á fimmtudegi þegar henni var byrlað.

„Lögreglan og sjúkraflutningamenn sögðu að ég væri bara drukkin. Fór á bráðamóttöku með sjúkrabíl, vel undir eðlilegum lífsmörkum. Á sjúkraskrá stóð „ölvuð, svaf úr sér og fór heim“ sóttist eftir lögregluskýrslu en fékk aldrei svar. Leið ömurlega í langan tíma og kenndi sjálfri mér um,“ segir konan og fleiri hafa svipaða sögu að segja.

Ein kona segir til að mynda frá því þegar henni var byrlað en hún var þá aðeins 17 ára gömul. „Þau á slysó sögðu að ég hefði bara drukkið of mikið. Hef passað glasið mitt síðan.“

„Helvítis ógeðið hefði getað drepið mig“

Sögurnar einskorðast þó ekki bara við athugasemdirnar við færslu Huldu. Fleiri hafa birt færslur á sínum síðum og sagt sína sögu af byrlunum. Þá hafa margir bent á að byrlanir geta verið lífshættulegar. Kona nokkur segir frá því á sinni síðu að þegar henni var byrlað hafi hún þurft að fara í hjartalínurit því hún var með hjartsláttatruflanir og sögu um of háan blóðþrýsting. „Helvítis ógeðið hefði getað drepið mig.“

Hópurinn Öfgar vakti einmitt athygli á því hvað byrlanir geta verið lífshættulegar í færslu sem birt var á Twitter-síðu hópsins í gær. Í færslunni er farið yfir algengustu lyfin sem notuð eru til byrlana og tekið er fram að mikið magn af lyfjunum getur valdið dauða, þá geta þau einnig valdið dauða í bland við áfengi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít