Rakel Eva Sævarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður sjálfbærni- og samfélagsábyrgðar hjá flugfélaginu PLAY. Rakel mun sjá um að móta og innleiða sjálfbærnistefnu félagsins ásamt því að skilgreina sjálfbærnitengd markmið þess sem snúa að umhverfismálum, félagslegum þáttum, stjórnarháttum og öðrum rekstrarlegum þáttum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Rakel, sem mun hefja störf í nóvember, var áður hjá Marel þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í sjálfbærni innan fiskiðnaðar. Þar áður starfaði hún sem ráðgjafi hjá Deloitte þar sem hún var sérhæfð í sjálfbærnitengdri ráðgjöf. Hún var einnig ein þriggja stofnenda Fortuna Invest sem er vettvangur á Instagram með það markmið að auka fjölbreytileika í þátttöku á fjármálamarkaði, einkum þátttöku kvenna.
Rakel Eva er með BA gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá sama háskóla.
„PLAY ætlar sér að vera til fyrirmyndar í málum er snúa að sjálfbærni- og samfélagsábyrgð enda eru þessi mál sífellt að verða mikilvægari fyrir öll fyrirtæki. Við finnum greinilega fyrir kröfu frá viðskiptavinum, fjárfestum og starfsfólki um að áhersla sé lögð á þennan málaflokk.
PLAY, sem nýtt fyrirtæki, hefur hér sjaldgæft tækifæri til að setja þessi mál á oddinn strax frá upphafi og það er mikill fengur fyrir fyrirtækið að fá Rakel Evu, sem hefur verið áberandi talsmaður þessara mála, til að leiða þennan málaflokk hjá okkur. Ég er mjög spenntur að fá hana í liðið,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY í tilkynningu.
Rakel Eva segist spennt að hefja störf og stolt af því að fá að taka þátt í vegferð PLAY í sjálfbærnitengdum málum.
„Flugiðnaðurinn hefur sjaldan verið jafn áhugaverður og í dag en hann stendur frammi fyrir miklum áskorunum og tækifærum þegar kemur að sjálfbærnitengdum málum. Þau flugfélög sem ætla sér að vera þátttakendur á markaðnum eftir fimm til tíu ár þurfa að taka þennan málaflokk föstum tökum og móta sér skýr, mælanleg og auðskiljanleg markmið á þessu sviði. PLAY ætlar að vera leiðandi í þessum málum og ég er gríðarlega spennt og ekki síður stolt af því að fá að taka þátt í þeirri vegferð með félaginu og því frábæra fólki sem þar starfar“ segir Rakel Eva.