DV kíkti í heimsókn til Kristjáns í bruggverksmiðju hans sem er við Vemmingbund í Broager, sem er hluti af sveitarfélaginu Sønderborg. Þar leigir Kristján aðstöðu til bjórgerðar ásamt vini sínum Kim sem bruggar einnig sinn eigin bjór og selur. Þeir félagar eru sem sagt með sitt hvort fyrirtækið og framleiða sína eigin bjóra en deila húsnæði og hjálpast að eftir því sem þörf krefur.
Kristján framleiðir bjór undir merkjum Harbour Mountain og eru nokkrar tegundir fáanlegar. Hann segist lengi hafa dundað sér við að brugga bjór heima enda mikill bjóráhugamaður og segja megi að það að brugga bjór og tónlist séu helstu áhugamálin og sé hann svo heppinn að geta haft atvinnu af þeim.
Hann byrjaði bjórframleiðslu og sölu fyrr á árinu og hefur allt gengið vel og takmarkast salan á bjórnum við framleiðslugetuna. Það fá ekki allir sem vilja.
Í upphafi var hann með fjórar tegundir sem byggjast á belgískri brugghefð, tvær sem byggja á bandarískri IPA bjórhefð og einn svokallaðan Stout sem er dökkur og sækir á svipuð mið og hinn írski Guinness.
Nú segist Kristján hins vegar vera að breyta aðeins um stefnu og færa sig nær því sem hjarta hans segir. Hann segir að nú séu það meira humlaðir bjórar sem heilla hann mest og sé hann því að taka þá stefnu og víki bjórinn, sem er byggður á belgískri hefð, fyrir vikið. Nú eru sætir og bragðmiklir svokallaðir New England IPA bjórar vinsælir en Kristján stefnir á að brugga það sem hann kallar old school bandarískar týpur sem eru yfirleitt minna sætir og hafa meiri kant. Þess utan finnist honum IPA-bjór mjög spennandi og gaman að brugga hann.
Það leynir sér ekki þegar rætt er við Kristján um bjór að hann hefur mikinn áhuga og þekkingu á bjór og að baki framleiðslunni liggi sönn ástríða.
Hann segist hafa gert ákveðin mistök í upphafi og hafi lært af þeim, það sé eiginlega óumflýjanlegt í framleiðslu af þessu tagi.
Kristján og Kim leigja aðstöðu fyrir bjórframleiðsluna og einnig leigja þeir tækjabúnaðinn af eiganda húsnæðisins. En þar sem framleiðslan og salan hafa gengið vel þá hafa þeir ákveðið að auka framleiðslugetuna og eru búnir að kaupa nýjan og stærri búnað til bruggunar. Þeir kaupa búnaðinn saman og skiptast á að nota hann. Munu þeir þannig þrefalda framleiðslugetu sína. Einnig gerir nýi tækjabúnaðurinn þeim kleift að lengja þann tíma sem ferlið tekur frá upphafi bruggunar þar til bjórinn fer í dós eða á kút og þannig aukast gæði hans enn frekar.
Kristján tappar bjórnum á dósir og í kúta. Kútana kaupir veitingastaðurinn Skaal í Sønderborg og gæti tekið fleiri ef framleiðslugetan leyfði. Hann segir að fleiri veitingastaðir vilji gjarnan fá bjór frá Harbour Mountain en ekki hafi verið hægt að verða við því vegna þess hversu lítil framleiðslugetan er en vonandi takist að bæta aðeins úr þessu með tilkomu nýju bruggtækjanna. Þá hafa sérverslanir með áfengi falast eftir bjór í dósum til sölu en ekki hefur verið hægt að verða við óskum þeirra allra.
Nöfnin á bjórunum eru öll sótt í tónlist og kannski ekki að furða því tónlist er stór þáttur í lífi Kristjáns. Meðal þeirra nafna sem hann hefur valið á bjórinn eru Nocturne, sem er Imperial Stout, en nafnið þýðir Næturljóð og á vel við dökkan og þungan bjór. Rhapsody er nafnið á Indian Pale Ale en nafnið er sótt til bandaríska verksins Rhapsody in Blue sem tengir bjórinn við Bandaríkin því í verkinu mætast jass, blús og klassík. Svona eru öll nöfnin sótt í tónlist og vísa til einkenna hvers bjórs.
Aðspurður sagðist Kristján ekki horfa til íslenska markaðarins að sinni enda sé hann bara rétt að stíga fyrstu skrefin í framleiðslunni og nóg að sinna danska markaðnum fyrst um sinn. Hann sagði þó að það gæti verið gaman að komast inn á íslenska markaðinn og það gæti verið spennandi að gera samstarfsbjór með íslensku brugghúsi.