Um klukkan hálfþrjú í nótt var tilkynnt um slys í miðbænum. Erlendur ferðamaður datt um blómaker og fékk áverka í andliti. Maðurinn var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á Bráðadeild.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en þar segir að um 90 mál hafi verið á dagskrá frá kl. 17 í gær til 5 í nótt. Var mikið um tilkynningar vegna hávaða og ölvunar.
Á tíunda tímanum í gærkvöld var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 105. Ökumaðurinn er talinn hafa keyrt á tvo bíla. Var hann grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Laust eftir miðnætti var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Kópavogi. Er hann grunaður um brot á vopnalögum og var hann vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.