fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Ólga á Hornafirði eftir kynferðisbrot konu – „Mér þykir lélegt að það sé bara hægt að láta eins og ekkert sé“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 23. október 2021 09:00

Frá Höfní Hornarfirði. Mynd: Pjetur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mál sem varðar kynferðisbrot konu gegn annarri konu hefur valdið mikilli ólgu á Hornafirði, þar sem gerandinn býr og starfar.  Dómur féll nýlega í héraði í umræddu máli sem kom upp vorið 2019. Var konan sakfelld fyrir kynferðisbrot gegn annarri konu en atvikið átti sér stað í rúmi á hótelherbergi við Rauðarárstíg í vinnuferð kvennahóps til Reykjavíkur.

Konurnar voru báðar í stjórnunarstöðum í félagslega kerfinu á Hornafirði. Gerandinn var framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunar sem rekin var af sveitarfélaginu. Eftir atvikið á Rauðarárstígnum kom þolandinn ekki aftur til starfa á Hornafirði en gerandinn hélt störfum áfram eins og ekkert hefði í skorist. Samkvæmt heimildum DV var hún ekki send í leyfi og því síður var henni vikið frá störfum, eftir að bæjarstjórn barst vitneskja um atvikið, né eftir að kæra var lögð fram skömmu eftir atvikið. Hins vegar urðu breytingar á högum ákærðu af öðrum ástæðum í marsmánuði síðastliðnum og gegnir hún núna skrifstofustarfi hjá stofnuninni  Vigdísarholt og hefur ekki mannaforráð. Tekið skal fram að ekki var ákært í málinu fyrr en um það leyti sem þessar breytingar voru gengnar í gegn, en ákæra var gefin út þann 25. mars.

„Mér finnst að einhver fjölmiðill þurfi að fjalla um þetta mál og þá sérstaklega í ljósi allrar þeirrar athygli sem karlmenn sem brjóta af sér hafa fengið,“ segir íbúi sem sendi DV skilaboð vegna málsins.

Kona ein sem býr í þorpinu hringdi í DV og segir málið afar umtalað á Höfn. Vildi hún ganga svo langt að fullyrða að flestir íbúar hefðu skoðun á því. „Mér  er gjörsamlega misboðið hvernig það virðist skipta máli hvernig stétt og stöðu þú gegnir í þessu litla bæjarfélagi, mér þykir lélegt að það sé bara hægt að láta eins og ekkert sé og láta rigna upp í nefið á sér þó að maður sé jafnvel búinn að eyðileggja líf manneskju.“ Til samanburðar vísar hún til máls starfsmanns hjá sundlaug staðarins sem rekinn var frá störfum nánast fyrirvaralaust eftir að hann hafði slegið til drengs sem  hlýddi ekki fyrirmælum hans. Óneitanlega er það mjög ólíkt mál. „Hann var starfsmaður á plani en ekki yfirmaður,“ segir konan og vill meina að stéttarmunur ráði ólíkum viðbrögðum við brotum starfsmanna sveitarfélagsins.

Vægt en þjáningarfullt brot

Sumir líta þó svo á að þetta kynferðisbrot sé vægt miðað við mörg mál sem koma upp og einhverjir benda á að á meðan þessi kona sé með dóm á bakinu nái mörg alvarleg mál sem varða meintar nauðganir karla á konum ekki fyrir dóm vegna erfiðrar sönnunarbyrði.

Konan var dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna brotsins, sem skilgreint er sem kynferðisleg áreitni, og til greiðslu 450.000 króna í skaðabætur auk málskostnaðar.

Atvikið átti sér stað í vinnuferð nokkurra kvenna frá Hornafirði til Reykjavíkur. Konurnar tvær deildu harkalega um vinnutengd málefni en eftir að þær höfðu tekið á sig náðir bankaði gerandinn upp á hjá þolandanum og leitaði sátta. Lyktaði þeim samskiptum með því að þær lögðust báðar til svefns í rúmi þolandans. Hún vaknaði síðan við það um nóttina að gerandinn hafði tekið um hönd hennar og látið hana strjúka nakinn líkama sinn. Þegar þolandinn gaf til kynna að hún vildi þetta ekki strauk hún henni utanklæða frá brjóstum niður á læri. Er þolandinn færði sig út á brún rúmsins og vafði utan um sig sænginni lagði hin konan andlit sitt upp að andliti hennar og sagði:  „Við skulum bara hafa það kósý. Er þetta ekki gott? Er þetta ekki bara bara kósý?“

Ljóst er að atvikið olli konunni miklum óþægindum og vanlíðan enda vaknaði hún upp við þessi óvelkomnu atlot. Báðar konurnar voru undir áhrifum áfengis en ekki ofurölvi. Konan hrökkaðist út úr hergbergi sínu í kjölfarið, bankaði upp hjá samstarfskonu þeirra og greindi henni frá atvikum. Hún greindi fleiri konum í ferðinni frá málinu. Vitnisburður þeirra fyrir dómi var á þá leið að atvikið hefði valdið konunni mikilli vanlíðan. Samkvæmt vitnisburði sálfræðings þjáðist hún af áfallastreituröskun og þunglyndi eftir atvikið.

Vinkona stígur fram á Facebook

DV hefur haft samband við aðila sem tengjast málinu beint, meðal annars vitni, og leitað álits. Hafa viðkomandi ekki viljað láta hafa neitt eftir sér um málið í bili, aðallega vegna þess að því sé ekki lokið. Það skýrist á næstu vikum hvort málinu verður áfrýjað til Landsréttar.

Eitt vitnið, Herdís Hjörleifsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ, hefur þó stigið fram og tjáð sig um málið í opinni Facebook-færslu. Herdís starfaði um tíma á Hornafirði og er vinkona þolandans. Hún segist ekki vilja tjá sig frekar um málið við fjölmiðla í bili en setti sig ekki upp á móti umfjöllun um Facebook-færsluna, en í henni segir:

„Sveitarfélagið Hornafjörður varð sér til ævarandi skammar við vinnslu þessa máls. Bæjarstjóra, varamanni hans og bæjarstjórn fannst sjálfsagt að láta gerandann njóta vafans þannig að fórnarlambið þurfti að flýja sveitarfélagið en báðar konurnar voru starfsmenn sveitarfélagsins.

Elsku vinkona þú ert einstök hetja Að taka ákvörðun um að kæra og fara í gegnum þetta langa, erfiða og niðurlægjandi ferli er ekki öllum gefið. Til hamingju með niðurstöðuna.“

Kona ein ritar þessi ummæli við færsluna: „Gæti ekki verið meira sammála þér, Herdís! Kjarkurinn og dugnaðurinn er aðdáunarverður. Eins hjá ykkur sem studdu hana í gegnum þetta erfiða ferli  En þetta sveitafélag þarf ærlega að taka til í sínum málum. Réttast væri að draga það einnig til ábyrgðar. Það brást henni algjörlega. Já, þeir mega aldeilis skammast sín.“

Um vitnisburð Herdísar fyrir dómi segir svo í texta hans:

„Vitnið [G], vinkona brotaþola, bar meðal annars um að brotaþoli hefði hringt í hana um ellefuleytið að morgni umrædds þriðjudags. Brotaþoli hefði verið í miklu uppnámi, grátandi og tal hennar samhengislaust á meðan þær ræddu saman. Brotaþoli hefði greint frá því að ákærða hefði káfað á henni um nóttina. Vitnið hefði ráðlagt brotaþola að leita til neyðarmóttöku Landspítalans. Brotaþoli hefði farið að ráðum hennar og þær síðan verið í endurteknum símasamskiptum yfir daginn, þar með talið fyrir og eftir komu brotaþola á neyðarmóttöku. Þær hefðu hins vegar ekki hist téðan dag. Brotaþoli hefði í símtölunum verið mjög miður sín, ólík sjálfri sér, grátandi, auk þess á tímabili að vera við það að kasta upp. Þá hefði hún meðal annars verið með hugann við það hvort hún hefði sagt eða gert eitthvað sjálf sem skýrði það sem gerst hefði milli hennar og ákærðu. Vanlíðan brotaþola hefði verið eins og ætti við um fólk sem lent hefði í áföllum en vitnið kvaðst hafa nánar tilgreinda þekkingu og reynslu á því sviði. Í huga vitnisins væri enginn vafi á því að vanlíðan brotaþola umræddan dag skýrðist af meintu broti ákærðu téða nótt. Vitnið hefði verið í símasamskiptum við brotaþola næstu daga á eftir, sem og öðrum samskiptum síðar. Þá hefði brotaþoli á tímabili, einhverju eftir á, ekki viljað ræða meint atvik eða umrætt sveitarfélag þar sem hún var búsett og starfandi á þeim tíma. Brotaþoli hefði í samskipum þeirra ekki rætt um nein önnur áföll í lífinu. Þá kvaðst vitnið telja að vinnuveitandi brotaþola hefði ekki brugðist við sem skyldi varðandi það sem gerðist. Brotaþoli hefði að lokum leitað sér aðstoðar vegna vanlíðanar.“

Þess skal getið að þolandinn í málinu hafði nýlega sagt upp störfum er atvikið átti sér stað. Hún kom hins vegar ekki aftur til Hornafjarðar og vann ekki uppsagnarfrest sinn og er ástæðan, samkvæmt heimildum DV, rakin til vanlíðunar hennar eftir atvikið.

DV sendi fyrirspurn vegna málsins til mannauðsstjóra og bæjarstjóra Hornafjarðar á fimmudag. Var þar spurt hvaða reglur giltu um viðbrögð við málum starfsmanna sem sakaðir eru um refsivert athæfi, sem og þeirra er sakaðir eru um kynferðisbrot. Fyrirspurninni var ekki svarað fyrir birtingu fréttarinnar.

Breytt 25. október klukkan 14.35:

Titill gerandans þegar brotið var framið var áður ranglega sagður „forstöðukona hjúkrunarheimilis“ en það hefur nú verið leiðrétt.

 

 

 

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“