Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var gestur í Fréttavaktinni á Hringbraut í vikunni. Þar ræddi Sigmundur meðal annars um Framsóknarflokkinn en Sigmundur var einmitt formaður þess flokks á sínum tíma.
Í þættinum gagnrýndi Sigmundur Framsóknarflokkinn harðlega fyrir áherslubreytingar í aðdraganda kosninganna. Hann segir flokkinn til að mynda hafa farið mjög hart til vinstri. „Fengu meira að segja frambjóðendur frá Samfylkingu og öðrum vinstri flokkum á lista hjá sér og fóru mikið í slíkar áherslur,“ segir hann til að mynda.
Þá gagnrýnir Sigmundur einnig „brellur“ flokksins í kosningabaráttunni og nefnir þar til dæmis samkvæmi sem flokkurinn hélt. Í samkvæminu sem um ræðir var OnlyFans-stjarnan Ósk Tryggvadóttir fengin til að sýna listir sínar sem eldgleypir eins og mbl.is greindi frá í haust. Fyrr á árinu vakti Ósk mikla athygli fyrir að opna sig um það hvernig það er að vera klámstjarna hér á landi.
„Tóku upp á alls konar brellum, það hefði komið mér á óvart á sínum tíma ef Framsóknarflokkurinn hefði haldið samkvæmi þar sem yfirlýst klámstjarna var fengin til að vera eldgleypir. Þetta var flokkur sem var svona vanari karlakórum og einhverjum slíkum atriðum en þau fóru mikið í það sem maður segir á ensku, að „rebranda“ sig,“ segir Sigmundur en ljóst er að hann er ekki svo hrifinn af þessari þróun hjá sínum gamla flokki.
Sigmundur kemur svo með sína kenningu fyrir góðu gengi Framsóknarflokksins í kosningunum en hann segir að auglýsingastofan sem sá um kosningabaráttuna þeirra eigi heiðurinn á því.
„Aðalástæðan fyrir úrslitunum var þessi auglýsingastofa sem las tíðarandann miklu betur en ég hefði gert mér grein fyrir með þessu ótrúlega slagorði: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ Það var bara stemningin. Fólk var orðið leitt á þessu, búnir að vera 18 mánuðir án stjórnmála og svo allt í einu koma 10 flokkar með sína stefnu og sína auglýsingar og þetta virkaði.“