Eiganda skemmtistaðarins Bankastræti Club, Birgittu Líf, og tveimur gestum staðarins, ber ekki fyllilega saman um atvik sem átti sér stað þar laugardagskvöldið 9. október síðastliðinn. Mennirnir urðu fyrir því að þeim var ógnað með hnífi á dansgólfi staðarins.
Mennirnir sem lentu í þessu vilja ekki stíga fram í fjölmiðlum en hafa veitt Jakobi Helgi Bjarnasyni, athafnamanni, leyfi til að miðla frásögninni. Jakob hefur reifað málið lítillega á Twitter en lýsir atvikinu fyrir blaðamanni DV svo:
„Þeir voru þarna með nokkrum öðrum strákum á dansgólfinu. Það var einhver gæji alltaf að rekast utan í þá á dansgólfinu. Annar þessara vina minna spyr hann hvort hann vilji færa sig því hann sé alltaf að rekast utan í þá. Sá maður fer eitthvað frá og hálfri mínútu síðar kemur hann til baka með vini sínum sem gengur upp að vinum mínum, tekur upp hníf, beinir honum að öðrum þeirra og spyr: Eru ekki allir góðir? Þeir voru mjög óttaslegnir yfir þessu, hlaupa á barinn og segja starfsfólki þar frá þessu og þeir benda dyraverði sem stendur þar skammt frá á þennan mann. Dyravörðurinn gengur að manninum, fer með honum eitthvað afsíðis og ræðir við hann. Vinir mínir báðu um fylgd út af staðnum af ótta við manninn og fengu hana. Þegar þeir fara út af staðnum sjá þeir að þessi gæji sem var að ógna þeim er kominn inn aftur eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Jakob.
Jakob telur að lögregla hafi ekki verið kölluð til og gagnrýnir staðinn fyrir það sem hann telur vera of væg viðbrögð. Þessu andmælir eigandi staðarins, Birgitta Líf. Er DV hafði samband við hana bað hún um skriflega fyrirspurn sem hún svaraði að bragði. Í svari hennar segir meðal annars að það sé rangt að maðurinn hafi fengið að fara aftur inn á staðinn. Birgitta ritar:
„Það leituðu tveir gestir til starfsmanns þetta kvöld og tjáðu honum að þeim hefði verið ógnað með hníf af öðrum gesti. Starfsmaðurinn fylgdi viðbragðsáætlun og fór strax og ræddi við aðilann og fylgdi honum út af staðnum, hann kom ekki aftur inn.
Bankastræti lítur ofbeldi og ógnun alvarlegum augum og hvetjum við gesti til að leita til starfsfólks komi slík atvik upp. Slíkt er ekki liðið innan staðarins og er aðilum vísað út ef slíkt kemur upp, bannaðir inn á staðinn aftur ef upp kemst um brot, lögreglu gert viðvart ef við á og afhentar upptökur sé þess óskað. Við erum með zero tolerance policy og viljum að öllum líði vel og geti skemmt sér á öruggan hátt hjá okkur.“
Ekki kemur fram í svari Birgittu hvort lögregla hafi verið kölluð til vegna málsins og liggur það ekki fyrir.
Þess má geta að Jakob Helgi og vinir hans standa við fullyrðingar sínar um að maðurinn hafi farið aftur inn á staðinn.