Morgunblaðið hefur eftir Jóni Diðriki Jónssyni, forstjóra Senu Live, að hann fagni afléttingunum og að hann vonist til að sóttvarnaaðgerðum verði aflétt til fulls eftir fjórar vikur. „Fyrir okkur er þetta stórkostlegt skref og ég er ekki að gagnrýna að þetta sé tekið í skrefum. Viðburðir verða einfaldari og ódýrari í framkvæmd. Þetta hefur mest að segja fyrir viðburði en í kvikmyndahúsum er þetta aðallega einföldun í ferlum,“ er haft eftir honum.
Fyrirhugað er að halda Andrea Bocelli tónleika í Kórnum í lok nóvember og að þar verði allt að 7.000 gestir. Jón sagði að erfitt hafi reynst að skipta þessum fjölda upp í 500 manna hólf með tilheyrandi aðbúnaði eins og reglur gerðu ráð fyrir þar til tilkynnt var um afléttingu sóttvarnaaðgerða.
„Það eru fyrirhugaðir tónleikar í kringum jólin sem við höfum verið að skipuleggja upp á von og óvon, sem við vitum núna að við getum haldið almennilega. Þetta tryggir að við getum haldið það sem við vorum að vonast til að geta haldið án vandkvæða. Við vonumst til að, ef þetta gengur ágætlega, það verði aflétt að fullu eftir fjórar vikur,“ sagði hann einnig.
Samkvæmt tilkynningu ríkisstjórnarinnar þá verður sóttvarnaaðgerðum aflétt að fullu 18. nóvember ef það tekst að halda faraldrinum niðri.