Sjónvarpspredikarinn Eiríkur Sigurbjörnsson var í byrjun mánaðarins dæmdur til þess að greiða 108,9 milljónir í sekt og sæta tíu mánaða fangelsis skilorðsbundið til tveggja ára vegna skattsvika. Dómurinn féll 1. október en var nýlega birtur á heimasíðu dómstólanna.
DV sagði frá því í mars í fyrra að Eiríkur hefði verið ákærður fyrir meiriháttar skattsvik með því að skila inn efnislega röngum skattframtölum á árunum 2011-2016. Þá var hann sagður hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram ríkulegar úttektir úr fyrirtæki í rekstri sem hann nýtti sér persónulega.
Eiríkur hefur rekið kristilegu sjónvarpsstöðina Omega síðan sumarið 1992, en hann segir að guð hafi talað við Eirík og hvatt hann til þess að drífa sig í sjónvarpsbransann.
Málið veltist svo um í kerfinu síðan þá þar til dómur féll nú í byrjun mánaðarins.
Í dómnum kemur fram að hinni svokallaðri þreföldunarreglu hafi verið beitt við ákvörðun sektarfjárhæðarinnar. Þannig var fjárhæðin sem Eiríkur kom sér undan að greiða í tekjuskatt þrefölduð og Eiríku gert að greiða þá upphæð í sekt.
Eiríkur þarf þá jafnframt að greiða 3,4 milljónir í málsvarnarlaun verjanda. Ekki er að sjá að málskostnaður hafi verið ákvarðaður.