„Ora Jólabjór er millidökkur, mildur og sætur með keim af jólunum sem fenginn er með íslenskri klassík: Ora grænum baunum og Ora rauðkáli. Drekkist einn og sér eða með hangikjötinu, jólasíldinni og jólaskapinu.“ Þannig er ORA Jólabjórnum frá brugghúsinu RVK Brewing lýst á heimasíðu ÁTVR. Má þá vera ljóst, að hér er eitthvað mikið á seyði.
Umbúðir jólabjórsins eru svo skreyttar með hinum táknrænu, og alíslensku, Ora baunum og rauðkáli.
DV tók Valgeir Valgeirsson, bruggmeistara hjá RVK Brewing Co. sem framleiðir ORA bjórinn á tal um nýjasta blómið í haga íslenskra jólabjóra, og leyndi stoltið sér ekki. Hins vegar sagði Valgeir að formleg kynning á bjórnum kæmi síðar og vildi hann sem minnst tjá sig uns hún hefur farið fram.
Samkvæmt lýsingu og myndum sem finna má á heimasíðu ÁTVR er þó ætlunin bersýnilega að sækja í gamla tímann sem umbúðir grænu baunanna frá ORA hafa að geyma. Á dósinni eru að finna leiðbeiningar, sambærilegum þeim sem finna má á dósum Ora baunanna:
„Kæling: Kælið innihaldið í kæliskáp við 4-6°C án þess að fjarlægja það úr dósinni,“ segir þar meðal annars.
„Notkun: Takið dósina úr kæli, opnið hana og hellið innihaldinu í fallegt glas. Ef glasið tæmist má endurtaka ferlið.“
Þá má jafnframt finna Jólasíldarauglýsingu frá Ora utan á Ora Jólabjórnum.
Ljóst er að rík jólabjórahefð er að skapast meðal íslenskra brugghúsa. Í jólabjórasmakki DV fyrir síðustu jól voru hvorki meira né minna en 49 bjórar undir, og stefnir í að þeir verði enn fleiri í ár. Nú strax í október skilar einföld leita inni á heimasíðu ÁTVR að „jólabjór“ 53 niðurstöðum, og má búast við að þeim fjölgi verulega á næstu vikum. Greindi mbl.is frá því í september að von væri á um 130 tegundum af jólabjór, en af þeim eru auðvitað þó nokkrar erlendar.
Sjá nánar um Jólabjórsmakk DV 2020: