Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Regínu Ásvaldsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs borgarinnar, að umræðan um smáhýsin hafi litast af fordómum og það hafi haft áhrif á framgang verkefnisins.
Hólmfríður Helga Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, sagði að smáhýsin hafi verið flutt á geymslusvæði borgarinnar í Skerjafirði í mars 2020. Hún sagði að andstaða íbúa í einstökum hverfum hafi tafið fyrir því að húsin hafi verið tekin í notkun. „Erfiðlega hefur gengið að festa lóðir fyrir þau en umhverfis- og skipulagssvið hefur unnið að því í meira en tvö ár. Það hefur gengið hægar en vonir stóðu til um, meðal annars vegna andstöðu íbúa og fyrirtækja í mörgum hverfum,“ er haft eftir henni.
Fyrirhugað er að fimm hús verði staðsett í Laugardal, tvö á Héðinsgötu og þrjú á Stórhöfða. Hólmfríður sagði stefnt á að setja þau upp um leið og lóðirnar undir þau verða tilbúnar. Þessu verkefni ætti að ljúka á næsta ári að hennar sögn.
Fimm smáhýsi hafa verið tekin í notkun í Gufunesi. Tvö eru komin í Skógarhlíð og þrjú á Kleppsmýrarveg og er unnið við frágang þeirra.