Sigurður Gísli Bjarnason, sérfræðingur í rekstrarlausnum hjá Advania, stefnir á að fara af stað með þjónustu sem er ný af nálinni hér á landi en er, að hans sögn, að verða mjög vinsæl í Bandaríkjunum. Um er að ræða eins konar knúsþjónustu fyrir einstaklinga sem skortir snertingu.
„Svona þjónusta er búin að vera vinsæl í Bandaríkjunum. Ég er nýfluttur þaðan og þetta er að verða mjög vinsælt þar. Þetta gengur bara út á það að, allavega í bandarísku þjóðfélagi, þá er fólk farið að einangrast rosalega mikið og farið að skorta snertingu. Það er að hafa alls konar slæm áhrif á þjóðfélagið í heild sinni. Þá byrjaði einhver með þessa hugmynd, að bjóða bara upp á þjónustu þar sem fólk getur fengið snertingu án þess að það sé í einhverju kynferðislegu samhengi,“ segir Sigurður um þjónustuna í samtali við DV.
Þá segir hann að knúsþjónusta sem þessi geti haft jákvæð áhrif. „Það er búið að sýna fram á að það sé mjög mikilvægt fyrir fólk í heild sinni að fá snertingu. Það eru margir sem eru að fara út í kynlíf sem þeir kannski vilja ekki vera í, bara til þess að fá snertingu,“ segir hann.
Þegar Sigurður bjó í Bandaríkjunum prófaði hann að nýta þjónustu í líkingu við þá sem hann ætlar að bjóða upp á. Hann útskýrir í samtali við blaðamann hvernig þjónustan var úti en þar var hægt að velja um að nýta þjónustuna einn eða í hópi. „Það er bæði hægt að gera þetta einn á einn með atvinnuknúsara en það er líka mjög vinsælt orðið að fara í hópknús. Ég get kannski líkt þessu við muninn á venjulegri sálfræðiþjónustu og hópasálfræðiþjónustu,“ segir hann.
„Í hópknúsinu er fólk að koma saman í einum sal og svo eru þau bara að knúsa hvert annað og svoleiðis. Annað hvort bara tveir saman eða jafnvel, það er mikið um það að það sé bara heill hópur allir saman.“
Eins og áður segir kynntist Sigurður þjónustunni sem notandi en eftir smá tíma ákvað hann að bjóða sjálfur upp á þjónustuna. „Eftir að hafa verið notandi í einhvern tíma, eitt eða tvö ár minnir mig, þá ákvað ég að fara út í það að bjóða upp á þetta. Það eru hópar úti sem bjóða upp á fullkomna kennslu í því hvernig á að gera þetta og svoleiðis. Þegar ég er kominn lengra í þessu þá fer ég kannski út í það [kennslu] líka en ég er ekki kominn svo langt,“ segir hann.
Sigurður er búinn að stofna vefsíðu fyrir kúrþjónustuna. Þar kemur fram að hann ætli að opna fyrir þjónustuna í september eða október á þessu ári en það virðist ekki vera að ganga upp. Sigurður segir að þar sem hann er að gera þetta í aukavinnu þá hefur þetta dregist aðeins á langinn en hann vonast til að geta opnað fyrir bókanir sem fyrst.
Hann segir að fólk muni þurfa að borga fyrir þjónustuna. „Þetta náttúrulega, eins og öll „professional“-þjónusta, þá er borgað fyrir þetta. Eins og fyrir hópa þá ertu að borga fyrir aðgang, eins og þú borgar fyrir aðgang að skemmtistað eða einhverju slíku. Venjulega var ég að borga 20 til 30 dollara fyrir hverja samkomu þegar ég bjó úti,“ segir hann en fyrir einstaklingsknúsið borgaði hann á bilinu 80 til 100 dollara á tímann.
Þrátt fyrir að fólk þurfi að borga fyrir þjónustuna þá segir Sigurður að markmiðið sé ekki að græða á verkefninu. „Ég er ekki að fara út í þetta í gróðarskyni. Markmiðið mitt er meira að hjálpa fólki sem er í þessari stöðu, fólki sem er ekki að fá næga snertingu. Því það hefur verið sýnt fram á að það getur leitt til þunglyndis og alls konar kvilla. Það kom líka mjög skýrt fram í Covid-faraldrinum hvað þetta er nauðsynlegt,“ segir hann.
Sigurður segist enn vera að melta hvað eðlilegt verð sé fyrir þjónustuna. „Ég hef verið að spá í að bjóða upp á þetta fyrir svona 5.000 kall á tímann. Það er svona gert með því sjónarmiði að sem flestir geti haft ráð á þessu og það væri bara upp í kostnaðinn.“
Sigurður telur að markaður sé fyrir knúsþjónustu hér á landi. „Mér myndi finnast mjög ólíklegt að það sé ekki markaður fyrir þetta hérna. Ég held að það sé meiri spurning um það hvort ég geti markaðsett þetta rétt heldur en hvort það sé markaður fyrir þetta. Með eitthvað svona er það held ég meiri spurning um markaðssetningu heldur en hitt,“ segir hann.
„Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af því að ég geti ekki annað eftirspurn heldur en að það sé ekki markaður fyrir þetta.“