Í þættinum Kveik á RÚV í kvöld verður fjallað um stafræna áreitni. Meðal viðmælanda í þættinum eru tvær vinkonur sem ganga í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu en þær koma fram undir dulnöfnunum Ásdís og Alexandra. Þær segja frá því í þættinum að í fyrra hafi þær frétt af því að stelpur í skólanum þeirra höfðu hitt mann sem vildi kaupa af þeim notaðar nærbuxur.
Ásdís ákvað að taka þátt í því að selja notuðu nærbuxurnar og í kjölfarið fóru alls konar menn að fylgja henni og Alexöndru á samfélagsmiðlum. Mennirnir fóru að biðja um kynferðislegar myndir og buðust stundum til þess að greiða fyrir þær. Ásdís segir að til að byrja með hafi hún bara sent myndir sem hún fann á netinu en ekki af sér sjálfri.
„En ég sendi svona nokkrum sinnum af mér. En ég sendi aldrei svona grófar. Bara svona flex, eins og það er kallað,“ segir Ásdís en með „flex“ er átt við að myndirnar sýni ekki fulla nekt. „Stundum vilja þeir bara að maður troði fætinum sínum upp í sig,“ segir Alexandra og tekur fram að mennirnir hafi ekki beðið hana um að sjá myndir af brjóstum eða rassi. „Þetta er svona weird fetish og eitthvað þannig.“
Stelpurnar fengu peninga fyrir myndirnar og nærbuxurnar. „Fyrir nærbuxurnar var þetta alveg þrettán þúsund kall,“ segir Ásdís en þær sögðu að nærbuxurnar væru notaðar þrátt fyrir að þær væru það ekki. Fyrir myndirnar fengu þær á bilinu 3000-5000 krónur sem greiddar voru í gegnum greiðslusmáforritið Aur.
Þegar móðir Ásdísar óskaði eftir því að fá yfirlit yfir færslurnar á reikningi dóttur sinnar sá hún að ekki var allt með felldu. Þegar hún komst að því hvað var á seyði kærðu þær mennina sem höfðu borgað henni til lögreglu, eftir það dró strax úr áreitinu.
Bæði Alexandra og Ásdís óska þess að þær hefu ekki gert þetta. Ásdís segist hafa hugsað um þetta sem auðvelda innkomu en eftir á fattaði hún hvað hafði í raun og veru verið í gangi. „Síðan fattaði ég eftir á að þetta er bara mjög ógeðslegt og heimskulegt og þetta bara endar aldrei eitthvað vel. Þetta gæti alltaf farið lengra ef þeir eru þannig,“ segir hún.
„Þeir spyrja kannski hvar maður býr. Þetta gæti alltaf… af því þessir menn, það er eitthvað að þeim.“
Þáttur Kveiks um stafræna áreitni verður sýndur á RÚV í kvöld klukkan 20:05.