fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Skrif Páls Vilhjálmssonar um Helga Seljan fordæmd – „Meiri óþverrinn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 18. október 2021 09:00

Helgi Seljan (t.v.) og Páll Vilhjálmsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, hefur uppskorið fordæmingu fyrir bloggspistil sinn um rannsóknarblaðamanninn Helga Seljan. Í pistlinum, sem ber yfirskriftina „Helgi Seljan játar sig geðveikan,“ virðist Páll ganga út frá því að sá sem hafi lagst inn á geðdeild eða strítt við geðrænan vanda sé sjálfkrafa ómarktækur. Segir Páll jafnframt að umfjöllun Helga Seljan um Samherja einkennist af þráhyggju.

Í Vikunni, sjónvarpsþætti Gísla Marteins á RÚV, greindi Helgi frá áreiti sem hann hefði mátt þola af hálfu útsendara Samherja, í kjölfar umfjöllunar hans um fyrirtækið. Í umfjöllun DV um viðtalið segir:

„Þetta er búið að vera alveg ömurlegt,“ sagði Helgi Seljan sjónvarpsfréttamaður RUV, aðspurður um hvernig síðastliðið ár hafi verið, en Helgi var gestur Gísla Marteins í þættinum Vikan á RUV í gærkvöldi.

Talaði Helgi þar opinskátt um upplifun sína af árásum viðfangsefna frétta hans, en Helgi var einn fréttamanna Kveiks sem opnaði á Samherjamálið svokallaða. Eftirmálar þess fréttaflutnings voru meðal annars aðför stjórnenda og starfsmanna Samherja að honum persónulega. Kallaði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri aðförina „fordæmalausar árásir,“ af hálfu Samherja.

„Ég er ekki í vinnu núna,“ sagði Helgi í þættinum. „Ég er bara að „díla“ við að koma mér á lappir eftir þetta skilurðu. Ég vona bara að ég þurfi ekki að upplifa annað svona ár.“

Sagði Helgi svo að við ættum ekki að þurfa að búa í samfélagi þar sem að svona hlutir eru að gerast.

Gísli spurði Helga þá við hvað Helgi hefði verið að kljást: „Er þetta kvíði, eða?“

„Ég hef svo sem sagt frá því áður, ég er veikur fyrir. Ég hef þurft að leggjast inn á geðdeild,“ svaraði Helgi. „Svo kemur þessi holskefla einhvern veginn á mér og samstarfsfólki mínu.“

„Ég á ekkert að þurfa að vera að pæla í því hvort einhver sé fyrir utan heima hjá mér, eða að það sé einhver að elta mig á morgnana eða áreita mig.“

Gísli spurði Helga þá hvort hann væri þarna að lýsa raunveruleikanum?

„Jájá, þetta er bara þannig,“ svaraði Helgi. „Svo gerist þetta yfir langan tíma og svo endar þetta með því að maður einhvern veginn kollsteypist á trýnið.“

Gísli sagðist þá hafa upplifað það, og benti á að um það hafi verið rætt, að það væri beinlínis verið að nýta sér það að hann [Helgi], væri ekki sterkur á geði. „Jájá, og það er held ég alveg, ég skal bara segja það, heimsmet í drullusokkshætti, að sjá að það eru einhverjir menn sem eiga að heita fullorðnir einstaklingar, áhrifamenn í samfélaginu, sem sitja og velta því fyrir sér hvernig hægt er að draga mig upp úr skítnum og nýta sér þetta. Það er bara ömurlegt.“

Dæmir Helga úr leik

Páll virðist dæma Helga úr leik sem hæfan til fréttamennsku og dagskrárgerðar þar sem hann viðurkenni að hafa þurft að leggjast inn á geðdeild, er hann segir:

„Sá sem er geðveikur er hvorki með sjálfan né heiminn á hreinu. Annars væri hann ekki geðveikur. Sá sem er læs á sjálfan sig er í standi til að taka ákvarðanir á lífsins vegferð. Til að skilja heiminn í kringum sig þarf maður að botna í sjálfum sér. Skilgreiningin á geðveiki er að tapa áttum, ekki smávegis eða í skamma stund, heldur verulega og til lengri tíma. Sá sem leggst inn á geðdeild er kominn í slíkar ógöngur að aðeins duga stórtæk inngrip læknisvísinda til að færa geðheilsuna í samt lag. Annars eru menn heima, taka lyfin sín, stunda reglulega hreyfingu og feta sig áfram til að takast á við lífið á ný.“

Dregur hann einnig þá ályktun af þessari játningu Helga að hann sjái heiminn í svarthvítu:

„Þeir sem búa að heilbrigðri dómgreind vita að í mannlífinu eru hlutirnir sjaldnast svartir eða hvítir. Þeir sem eru skyni skroppnir eru aftur iðulega sannfærðir að heimurinn skiptist í illmenni og góðmenni.“

„Ógeðslegt“

Hinn þekkti blaðamaður Vísis, Jakob Bjarnar Grétarsson, deilir pistli Páls með orðunum: „Huggulegur kennari í Garðabæ og Blogger.“ – Skrifin eru fordæmd í líflegum umræðum undir færslu Jakobs, og eru það ekki síst blaðamenn sem þar lýsa skoðun sinni á skrifunum. „Meiri óþverrinn,“ segir Egill Helgason, og Garðar Örn Úlfarsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar: „Páli virðist annt um viðhalda orðspori sínu sem alfremsti kúkalabbi landsins.“

Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur segir einfaldlega: „Ógeðslegt.“

„Fyrirlitlegt,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir: „Þetta er nú meiri smásálarhroðinn.“

Vakin er athygi á því að reglulega er vitnað í skrif Páls í Staksteinum Morgunblaðsins og velta sumir vöngum yfir því hvort svo verði um þenna fordæmda pistil Páls. Baldur Guðmundsson, fyrrverandi fréttastjóri DV, segir að til þess sé leikurinn gerður: „Þetta er sennilega skrifað til þess eins.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu