Rétt í þessu fékk DV fregnir af því að maður hafi verið stunginn með hnífi hjá Breiðholtsslaug. Miðað við myndir sem DV fékk sendar frá vettvangi var maðurinn stunginn í magann, þá má einnig sjá sérsveitarmenn á svæðinu.
Þóra Jónasdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti að árásin hafi átt sér stað við Breiðholtslaug í samtali við DV.
„Þetta er bara í gangi, það var held ég ekki í lauginni sjálfri en það er búið að handtaka gerandann. Ég veit ekki hvað voru miklir áverkar, þetta er bara í vinnslu hjá okkur þannig ég get ekki sagt neitt frekar,“ segir Þóra í samtali við DV.
„Þetta var fyrir utan held ég, ég bara er ekki komin með það á hreint. Það er bara verið að vinna þetta.“
Að sögn lögreglu á vettvangi er um að ræða átök drengja sem virðist hafa farið úr böndunum. Lögreglan á svæðinu staðfesti að atvikið hafi átt sér stað í Breiðholtslaug. Þá var sérstaklega tekið fram að málið tengist ekki Fjölbrautaskóla Breiðholts sem er í næsta húsi.
Fjölmennt lið lögreglu var á vettvangi þegar blaðamann DV bar að og var árásarmaðurinn þá þegar í haldi lögreglu.