Karlmaður sem starfaði á sambýli hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot í opinberu starfi. Er hann í ákærunni sagður hafa tekið upp myndbrot af vistmanni sambýlisins þar sem hann lá nakinn uppi í rúmi og handlék á sér kynfærin. Sendi maðurinn myndbandið svo í gegnum samskiptaforritið Snapchat í mars í fyrra.
Mánuði síðar, eða í apríl 2020, er hann svo, í sömu ákæru, sagður hafa hótað þessum sama viðtakanda skilaboðanna á Snapchat í skilaboðum í gegnum Instagram. Í ákærunni eru hótanirnar sagðar felast í eftirfarandi skilaboðum, sem voru til þess fallin að vekja hjá honum ótta um líf, heilbrigði og velferð hans.
a. „Ég er líka að fara að berja þig svo alvarlega“
b. „Ég er búinn að hringja líka í fólk […] minn“
c. „Passaðu þig“
d. „Ef þú ætlar að jarða mitt mannorð þar sem ég hef reynt að standa mig eins og ég get, þá mun ég gjörsamlega ganga frá þér“
e. „Horfðu á bak við þig hvert sem þú ferð […]“
f. „Ég er að fara að berja þig í klessu“
Brotaþoli mannsins í hinu meinta kynferðisafbrotamáli gerir kröfu um að maðurinn greiði sér 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna athæfisins.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í haust og er næst á dagskrá dómstólsins þann 1. nóvember næstkomandi.