Sjónvarpskonan Margrét Erla Maack glímdi við fæðingarþunglyndi í kjölfar þess að hún eignaðist dóttur fyrir tveimur árum síðan. Frá þessu greinir hún í bakþanka Fréttablaðsins í dag.
Þar lýsir hún því er samfélagsmiðlar minntu hana á fæðinguna fyrir tveimur árum er hún skipulagði afmælisveislu fyrir tveggja ára dóttur sína. „Móðir hennar henti í mjög ljóta en gríðarlega góða tígrisköku af þessu tilefni. Eins og gengur og gerist minntu samfélagsmiðlar mig á gamlar minningar – og þar birtist mynd af henni, voðalega krumpaðri með fósturfituna í hárinu.“
Minningarnar helltust þá yfir Margréti. „Þarna sá ég fallegasta barn í heimi. En á þeim tíma sem myndin var tekin, 9. október 2019, upplifði ég engar tilfinningar, bara flata tilfinningalínu, búin á því eftir frekar eðlilega fæðingu.“
Margrét segist ekki hafa fundið fyrir neinum tilfinningum er barni hennar var lagt á bera bringu hennar. „En þá fann ég ekkert. Ekki neitt.“ Þannig hafa fyrsta árið liðið. Lýsir hún sér sem draug sem rétt náði að sinna barninu, en engu öðru.
Margrét segist ennþá hafa hana á brjósti, því það sé það eina sem hún gerði rétt á sínum tíma. „Allt annað á fyrsta árinu fannst mér misheppnað og ekki nógu gott.“
„Sem betur fer óskaði ég eftir hjálp, alltof seint og það var ógeðslega erfitt. Fæðingarþunglyndi er stórt orð. Það felur í sér hræðilegan niður á við-spíral og það erfiðasta er að það er ekki hægt að safna í neinn gleðibanka,“ skrifar Margrét þá.
Pistil Margrétar má finna á baksíðu helgarblaðs Fréttablaðsins, sem einnig er aðgengilegt á vef Fréttablaðsins, frettabladid.is.