Íbúakosningunni Hverfið mitt er lokið og hafa niðurstöður hennar verið kynntar fyrir íbúum í borginni en ekki eru þó öll sátt með niðurstöðurnar.
Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, deildi niðurstöðum úr kosningunni fyrir Laugardalinn í Facebook-hópi íbúa í 104 Reykjavík í gær. „Skemmtileg verkefni valin í Laugardalnum, til hamingju!“ skrifaði Sabine í færslunni sem fékk dræm viðbrögð frá meðlimum hópsins.
Reiði íbúa stafar helst af því að ekki var ákveðið að ráðast í endurbætur á skólalóð Vogaskóla, grunnskólans í hverfinu, þrátt fyrir að það hafi verið næstvinsælasta verkefnið í kosningunni. Skólalóðin virðist hafa setið á hakanum á meðan aðrar skólalóðir í borginni hafa fengið yfirhalningu.
„Í raun skammarlegt að Reykjavíkurborg skuli bjóða börnum í skólanum upp á jafn slaka aðstöðu og raun bera vitni. Börnin í Vogaskóla eiga skilið að leika við jafn góðar aðstæður og Reykjavíkurborg býður öðrum börnum upp á í öðrum skólum í Reykjavík,“ segir til að mynda í tillögunni.
Sá sem kom með tillöguna kemur með margar hugmyndir um hvernig megi bæta lóðina. Má þar helst nefna malbikaða fótboltavöllinn og malbikaða körfuboltavöllinn, lélegu lýsinguna á lóðinni og fleiri leiktæki, meðal annars fyrir fatlaða. „Gefum börnunum tækifæri á að leika við mannsæmandi aðstæður líkt og í öðrum skólum í Reykjavík. Þau eiga það skilið,“ segir svo í tillögunni.
„Þegar skólalóðir í hverfinu eða Reykjavík eru skoðaðar þá sést að Vogaskóli er algjört „Olnbogabarn“ í hverfinu. Krakkar úr skólanum skila sér verr í íþróttir í hverfinu þó að hvergi í Reykjavík sé betra úrval. Aðstaða í skóla skiptir gríðarlega miklu máli upp á hvata og áhuga þegar kemur að hreyfingu, útiveru og íþróttaiðkun. “
Í staðinn fyrir að laga skólalóðina var ákveðið að ráðast í ýmis gæluverkefni. Má þar til dæmis nefna upplýsingaskilti, uppsetningu jólalands og betri grenndarstöðvar, en listann yfir verkefnin sem voru valin má sjá hér fyrir neðan.
Athygli vekur að eina verkefnið á þessum lista sem fékk meiri meðbyr á betrireykjavik.is en endurbæturnar á skólalóð Vogaskóla er sjósundsaðstaðan á Laugarnestanga. Endurbæturnar fengu til að mynda 215 hjörtu á vefnum á meðan upplýsingaskiltið sem var valið fékk einungis 30. Þá voru 40 manns sem skrifuðu röksemdir með endurbótunum á Vogaskóla en ekki ein manneskja skrifaði röksemdir með skiltinu.
Ljóst er að íbúar hverfisins eru allt annað en sáttir með niðurstöðurnar og ausa þeir úr skálum reiði sinnar í athugasemdunum við færslu Sabine. „Alveg með ólíkindum. Þessi fáu leiktæki sem eru til staðar eru að brotna niður. Dóttir mín og vinkonur voru að róla þarna og rólurnar slitnuðu niður og ein fékk risa járnstykki í andlitið. Sem betur fer slasaðist hún ekki alvarlega. Ég sendi inn kvörtun með myndum af ástandinu og það kom eftirlitsmaður og hengdi upp aftur. Sagði mér svo að vonandi yrði lóðin tekin í gegn 2023,“ segir til að mynda eitt foreldri sem býr í hverfinu.
„Hvað er í gangi? Af hverju er hluti af Vogaskólalóðinni ekki tekin inn hér, líklega minnsta skólalóð höfuðborgarsvæðisins og með aðeins þremur leiktækjum (rólu, litlu klifurtæki og sparkhring). Grátlegt að sjá hana ekki á þessum lista,“ segir svo annar íbúi hverfisins.
Í enn annarri athugasemd hvetur foreldri í hverfinu til þess að borgarstjórn bregðist við áskorun sem nemendur Vogaskóla afhentu borgarstjóranum. „Gjörsamlega galið að framkvæmdir á skólalóð séu ákvarðaðar í vinsældarkosningu hverfis þar sem margir grunnskólar eru starfræktir og gefur auga leið að nemenda og aðstandendafjöldi ræður kjöri. Hvernig má þetta vera? Þetta er til háborinnar skammar í borginni og ég vona svo sannarlega að kjörnir fulltrúar í borgarstjórn sjái sóma sinn í að bregðast við áskorun nemenda Vogaskóla sem afhent var borgarstjóranum á dögunum.“