„Þetta er búið að vera alveg ömurlegt,“ sagði Helgi Seljan sjónvarpsfréttamaður RUV, aðspurður um hvernig síðastliðið ár hafi verið, en Helgi var gestur Gísla Marteins í þættinum Vikan á RUV í gærkvöldi.
Talaði Helgi þar opinskátt um upplifun sína af árásum viðfangsefna frétta hans, en Helgi var einn fréttamanna Kveiks sem opnaði á Samherjamálið svokallaða. Eftirmálar þess fréttaflutnings voru meðal annars aðför stjórnenda og starfsmanna Samherja að honum persónulega. Kallaði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri aðförina „fordæmalausar árásir,“ af hálfu Samherja.
„Ég er ekki í vinnu núna,“ sagði Helgi í þættinum. „Ég er bara að „díla“ við að koma mér á lappir eftir þetta skilurðu. Ég vona bara að ég þurfi ekki að upplifa annað svona ár.“
Sagði Helgi svo að við ættum ekki að þurfa að búa í samfélagi þar sem að svona hlutir eru að gerast.
Gísli spurði Helga þá við hvað Helgi hefði verið að kljást: „Er þetta kvíði, eða?“
„Ég hef svo sem sagt frá því áður, ég er veikur fyrir. Ég hef þurft að leggjast inn á geðdeild,“ svaraði Helgi. „Svo kemur þessi holskefla einhvern veginn á mér og samstarfsfólki mínu.“
„Ég á ekkert að þurfa að vera að pæla í því hvort einhver sé fyrir utan heima hjá mér, eða að það sé einhver að elta mig á morgnana eða áreita mig.“
Gísli spurði Helga þá hvort hann væri þarna að lýsa raunveruleikanum?
„Jájá, þetta er bara þannig,“ svaraði Helgi. „Svo gerist þetta yfir langan tíma og svo endar þetta með því að maður einhvern veginn kollsteypist á trýnið.“
Gísli sagðist þá hafa upplifað það, og benti á að um það hafi verið rætt, að það væri beinlínis verið að nýta sér það að hann [Helgi], væri ekki sterkur á geði. „Jájá, og það er held ég alveg, ég skal bara segja það, heimsmet í drullusokkshætti, að sjá að það eru einhverjir menn sem eiga að heita fullorðnir einstaklingar, áhrifamenn í samfélaginu, sem sitja og velta því fyrir sér hvernig hægt er að draga mig upp úr skítnum og nýta sér þetta. Það er bara ömurlegt.“
Aðspurður hvernig hann hefði því núna sagðist Helgi vera að rífa sig upp. „Ég er að „díla“ við þetta með mínu fólki. Ég sem betur fer á fullt af góðu fólki, fjölskylduna mína, og ég er að koma mér á lappir. Ég hef tækifæri til þess að ná mér, vegna þessa fólks.