Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er nú rekið mál héraðssaksóknara gegn manni fyrir ítrekuð, gróf og grimmdarleg ofbeldisbrot gegn fyrrum sambýliskonu sinni á mánaðartímabili í lok árs 2018 og byrjun árs 2019.
Er maðurinn í ákæru sagður hafa í byrjun desember 2018 kastað konunni utan í húsgögn og kýlt hana í bringuna með krepptum hnefa í bringuna. Hlaut konan af þessari árás mannsins mar á olnboga og víða um líkamann.
Á milli jóla og nýárs það sama ár mun maðurinn hafa veist að konunni með spörkum og slegið hana í andlitið. Þegar konan náði að hlaupa undan manninum út úr íbúðinni og fram á stigagang er hann sagður hafa dregið konuna aftur inn í íbúðina með hendur utan um háls hennar, farið með hana þannig inn í svefnherbergi, afklætt hana og nauðgað henni. Hlaut konan mar og sár víða um líkamann auk fjölda marbletta af árásinni.
Loks er maðurinn ákærður fyrir grófa líkamsárás og brot í nánu sambandi með því að hafa í lok janúar haldið konunni niðri í gólfi íbúðar þeirra og svo kastað konunni á sjónvarpsskenk.
Konan krefst tveggja milljóna miskabótagreiðslu úr hendi mannsins og gerir saksóknari jafnframt þá kröfu að maðurinn verði dæmdur til refsingar og að hann greiði sakarkostnað samkvæmt reglum þar um.
Málið hefur þegar verið þingfest og verður næsta fyrirtaka í málinu þann 20. október í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þinghaldi í málinu er lokað.