Landsréttur staðfesti í vikunni úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að brotaþoli í broti fanga á Litla Hrauni gegn nálgunarbanni fái ekki notið aðstoðar skipaðs réttargæslumanns í málinu.
Maðurinn er grunaður um brot gegn nálgunarbanni með því að hafa á tímabilinu 25. janúar þessa árs til 4. febrúar hringt samtals tólf sinnum úr síma á sameiginlegum gangi á Litla Hrauni í farsímanúmer konunnar, þrátt fyrir að hafa þá sætt nálgunarbanni gagnvart konunni. Felur nálgunarbann það meðal annars í sér að sá sem því sætir má ekki setja sig í samband við einstaklinginn sem um ræðir með nokkru móti.
Segir í úrskurðinum að lögmaðurinn Leifur Runólfsson hafi mætt við þingfestingu málsins og þar haft uppi þá kröfu af hálfu brotaþola að hann yrði skipaðir réttargæslumaður hennar. Dómari féllst ekki á þau rök hans og vísaði til skilyrða í lögum um skipan réttargæslumanna. Þar kemur fram að slíkir skuli skipaðir þegar brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er honum nákominn.
Þrátt fyrir að gerandi í málinu og brotaþoli teljist nákomin taldi dómari ekkert liggja frammi í málinu sem gat bent til þess að brotaþoli hafi sérstaka þörf fyrir réttargæslumann í málinu.
Sem fyrr sagði, staðfesti Landsréttur úrskurðinn í gær. Konan krefst 700 þúsund króna í miskabætur vegna brota mannsins gegn nálgunarbanninu.