Nú er ljóst að nýr landnemi hefur fest sig í sessi í íslenskri náttúru. Um er að ræða svokallaða sindraskel (e. Ensis terranovensis) sem til þessa hefur aðeins fundist við Nýfundaland. Þetta kemur fram í frétt á vef Náttúruminjasafn Íslands.
Þar kemur fram að á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Áður höfðu fundist tvö eintök, reyndar annarrar tegundar, dauð í fjöru við Lónsfjörð árið 1957 og því liðu 63 ár þar til vart var við slíkar skeljar að nýju.
Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar, mjóar og skelbrúnirnar hnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er komið enskt heiti þeirra razor clams. Hnífskeljarnar verða allt að 20 cm langar og þykja hnossgæti.