fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Fréttir

Björn Ingi á Viljanum birti opið bréf til Þórólfs – „Sjálfur er ég hættur að drekka“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 15. október 2021 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, hefur nú birt opið bréf til Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis, þar sem hann hvetur Þórólf til að standa við það að aflétta sóttvarnatakmörkunum sem ekki lengur eru bráðnauðsynlegar.

Það vakti athygli á miðvikudag þegar Þórólfur greindi frá því að hugsanlega gætu inflúensa og RS-veira sett strik í reikninginn hvað varðar afléttingu sóttvarnatakmarkanna.

Dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sagði í framhaldinu að Þórólfur gæti ekki frestað afléttingum með vísan til umgangspesta og Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, gekk svo langt að kalla ummæli sóttvarnalæknis  „tilhæfulausan hræðsluáróður“.

Þórólfur hefur varið afstöðu sína með vísan til þess að tryggja þurfi að heilbrigðiskerfið geti ráðið við inflúensu og RS-veiru samhliða COVID-19 tilfellum sem og með vísan til þess að sömu áhyggjur hafi verið viðraðar hjá öðrum norrænum heilbrigðisyfirvöldum.

Skynjar óánægju og pirring

Björn Ingi bendir Þórólfi á að þjóðin sé heppin að hafa notið leiðsagnar sóttvarnalæknis í gegnum faraldur COVID-19 og megi líklega þakka honum hversu vel Ísland hefur komist frá faraldrinum. En staðan í dag sé önnur og betri og landsmenn orðnir þreyttir á skerðingum á persónufrelsi þeirra.

„En einmitt vegna þess að við höfum staðið okkur svo vel og fylgt leiðbeiningum þínum og hollráðum samviskusamlega, skynja ég nú mikla óánægju og pirring yfir því að ekki gangi hraðar en raun ber vitni að slaka á samkomutakmörkunum og skerðingu á persónufrelsi okkar borgaranna. Skerðingu sem var algerlega fordæmalaus og átti alltaf aðeins að vera tímabundin.“

Ný og ný rök fyrir óbreyttum ráðstöfunum

Björn Ingi bendir á að aðrar Norðurlandaþjóðir hafi nú aflétt öllum takmörkunum sem og margar aðrar þjóðir.

„En hér á landi gilda enn margvíslegar takmarkanir og ég heyri mikla óánægju með það, ekki síst með þær röksemdir þínar að aðrir þættir á borð við inflúensu og RS-vírusinn geti gert það að verkum að neyðarástand skapist í heilbrigðiskerfinu og þess vegna þurfi að fara varlega.“

Björn Ingi segir að líklega sé margt til í áhyggjum Þórólfs en hins vegar hefðu hvorki RS-vírusinn né inflúensan orðið til þess í eðlilegu ástandi að samkomutakmörkunum væri komið á.

„Við hefðum verið beðin að fara varlega og passa okkur og börnin okkar, en lengra hefði ekki verið gengið í því. Og þess vegna virkar það nú, eins og þú sem sóttvarnalæknir sért farinn að finna ný og ný rök fyrir því að halda óbreyttum ráðstöfunum. Ef ekki út af COVID-19, þá bara einhverju öðru.“

Sjálfur er ég hættur að drekka

Þetta telur Björn Ingi hvorki skynsamlegt né framkvæmanlegt í nútímasamfélagi. Þó hann sjálfur sé hættur að drekka og viti að ekki séu alltaf að gerast skynsamlegir hlutir á skemmtanalífinu þá verði Þórólfur að treysta landsmönnum til að bera ábyrgð á eigin hegðun.

„Sjálfur er ég hættur að drekka, en tel samt að við getum ekki öllu lengur varið að skerða opnunartíma kráa og veitingahúsa. Auðvitað er ekki allt skynsamlegt sem gerist á slíkum stöðum eftir miðnætti, en það er eins og það er, og verður að koma í hlut hvers og eins að bera ábyrgð á sér sjálfum í þeim efnum. Staðan í COVID-19 faraldrinum réttlætir ekki óbreytta skerðingu á opnunartíma, það held ég að blasi við.“

Annars er hættan að landsmenn hætti að taka mark á reglum

Því hvetur Björn Ingi Þórólf til að halda áfram að gefa þjóðinni góð ráð og brýna góða siði en að sama bragði standa við það að aflétta takmörkunum sem ekki geti lengur talist bráðnauðsynlegar.

„Til dæmis grímuskyldu, opnunartíma skemmtistaða og reglum um hámarksfjölda. Annars er hættan sú að landsmenn hætti að taka mark á þessum reglum, virði þær að vettugi og komi sér hjá þeim. Það verður svo aftur til þess að samstaðan rofnar og það gæti komið í bakið á okkur seinna meir, ef staðan breytist og aftur verður ástæða til alvöru aðgerða. Þú hefur sjálfur margítrekað, að samstaðan sé besta vörnin gegn veirunni.“

Þórólfur þurfi að gæta að þessari samstöðu. Neyðarástandið á Landspítala verði COVID-19 ekki lengur kennt um og ekki heldur RS-vírus eða inflúensu.

„Heldur langvarandi skorti á fjármunum og röngum ákvörðunum. Hvort tveggja verða stjórnmálamennirnir að leysa og það strax, en það verður ekki gert með frekari skerðingu á frelsi okkar borgaranna. Það bara gengur ekki.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum